111532775447979872

Hneyksli dagsins…
Það er hætt að selja Freyju Bombur úti í búð. Eini staðurinn til að nálgast þær er á nammibörum sjoppa.
…og það nær lengra…
Það er hægt að fá Rís kubba úti í búð, en ekki Draumskubba. Hvað er þetta?!
…alveg niður að rótum samfélagsins…
Magnum íspinnar og Djæf íspinnar bragðast nánast eins en samt er alveg sjötíu króna verðmunur á þeim
…næst á dagskrá: RAGNARÖK
Svo hefur verð á Doritos flögum hækkað á ný

Arngrímur: Flettir roðinu af hinum rotna fisk verslunarsamtakanna.

Gullmoli dagsins:
er úr laginu „You’re so vain“, eftir Carly Simon og hljóðar svo:
„You’re so vain, you probably think this song is about you.“
Skemmtileg hvernig innihald setningarinnar stangast á við sjálft sig. Minnir mig svolítið á dæmið um spjaldið. Á annarri hliðinni stóð að fullyrðingin hinum megin væri sönn, en á hinni hliðinni stóð að fullyrðingin á hinni hliðinni væri ósönn. Ástang (nýtt nafnorð, búið til úr orðtækinu „að stangast á“) dauðans.

111532766832075922

Ég var að fá e-mail frá einhverri Nicol, sem að því er virðist er frá Ítalíu (enda var e-mailið á ítölsku). Eftir þýðingu stendur þetta eftir: „Halló, ég heiti Nicol og ég er 21 árs og ég geri (þ.e. hún leikur í (einhvers konar þáttur)) myndbands erótíkina Chattista. Hvenær sem þú hefur tíma skaltu tengjast mér (þetta er webcam), ég er viss um að þú verðir sáttur. Ég býð þín, Nicol.“

Svona er það að vera bloggari. Frægðin segir til sín og gellurnar alveg trítilóðar…

Vinnudagur Satans:

Í dag hefur rignt eins og hellt væri úr drykkjarhorni Útgarða-Loka og að sjálfsögðu hef ég verið úti að vinna í allan dag. Það stytti fyrst upp þegar vinnunni var að ljúka. Að sjálfsögðu var ég settur á orf (að vísu ekki eins fínt og þetta). Eftir að hafa unnið eins og brjálæðingur, meðan samstarfsmenn dagsins (einnig á orfi) gerðu ekki neitt, voru þeir báðir verðlaunaðir með þægilegri vinnum. Ekki ég. Ég þurfti að orfa allan daginn, frá átta til fimm! Að vísu voru þar í milli matarhlé en þau voru ekki upp á marga fiska (ég legg til að við leggjum niður „fiska“ og setjum „seðla“ í staðinn). Þar þurfti ég að hlusta á Lurann, er áður hefur verið nefndur, fræða fólk um það hvernig „hjúds torrneidóar“ og „sjúklega hjúds högl“ ættu sér sama uppruna. Engin rök voru færð fyrir málinu og augljóst var að hann vissi ekkert um hvað hann var að tala. Eitt gerðist þó kostulegt í dag en var það þegar hinn einnig áðurnefndi Baritóndvergur hlaut heimsókn frá móður sinni, en hún setti hann aftan á skottið í bílnum sínum og klæddi hann í stígvél og regngalla. Er ég nú sannfærður um að hinn meinti MH-ingur sé í raun leikskólakrakki í barnaþrælkun.

Hvað er það sem ég ætla mér svo að gera núna þegar vinnan er búin? Ekki neitt. Ég er allt of þreyttur. Svona verður líf mitt líklegast alveg fram að helgi, en þá mun ég líklegast setjast að drykkju eins og sönnum verkamanni sæmir. Ef það gengur ekki upp sem skyldi þá er það alltaf bókin góða (ekki biblían!). Ætli ég lesi ekki bara einhverja Discworld bók eða eitthvað. Mér dettur ekkert annað sniðugt í hug til að lesa. Að lokum vil ég benda þeim sem hafa ekki enn komist að því á það að dr. Ármann er farinn að blogga á ný. Heimurinn hefur svo sannarlega skánað…