111532876855369245

Tilvera Andrésar var alveg hreint til prýði, þó svo að ýmislegt hefði betur mátt fara. Það eina sem var til ama var skortur á geimskipi (verður lagað), örfáar klippingar (verður lagað) og hljóðið í endann á myndinni (verður einnig lagað). Annars munu tökur á minni eigin mynd (Maðurinn sem dó úr ofáti: Leikþáttur í þremur hlutum) hefjast í kringum þann tuttugasta þessa mánaðar. Það verður fjör.
Annars óska ég eftir tónlistarmönnum til að aðstoða mig við útsetningar og upptökur á tónlistinni fyrir myndina, en ég samdi hana sjálfur. Það er svosem ekki að spyrja að því hvort Silja verði mér ekki innan handar við þetta, enda er hún helmingur hljómsveitar okkar, Helþrymju. Æskileg hljóðfæri (þó að flest komi til greina) eru: Gítar, bassi, mandólín (ef svo ólíklega vill til að einhver spili á það snilldar hljóðfæri), fiðla, selló og trommur. Ég held við ráðum við restina. Allar umsóknir berist á e-mailið neðst í línkasafninu og ber að athuga að þetta er launalaust starf. Einu launin verða viðurkenningin, eintak af myndinni og diskur með lögunum. Öllu tónlistarfólki er velkomið að sækja um.

Nýtæki
Að lokum birtist hér nýtæki frá Alla vini mínum:
„Sjálfselja“, þ.e. portkona (ritskoðað: upphaflega orðið var of gróft), kvk orð, dregið af orðinu „sjálfsali“.

111532841079208401

Þrátt fyrir fyrrnefnd gleðitíðindi er ég ekki glaður. Ég mun líklegast fara yfir móðuna miklu áður en mér tekst að velja mér framtíð.

Sem er eimitt það sem plagar mig hvað mest. Ég er ekki aðeins að velja skóla, braut, menntun og blabla, heldur er ég líka að velja framtíð mína. Framtíðin er eins og Satan, og Satan er djúpur og kaldur.

Nóg komið af þrugli. Nú skal blundað í nákvæmlega sextíu mínútur. Svo skal í vinnu haldið. Þar skal unnið. Reyndar ætla ég að reyna að komast hvað mest hjá því að vinna nokkuð. Ég er alls ekki vinnufær. Þetta er meira spurning um hvort ég vilji frekar sofa úr mér áfengisvímuna eða vinna mér sex-sjöþúsundkall. Ekki erfitt val. Það er nefnilega ekkert gaman að vera á góðu kaupi. Þá fórnar maður svo miklu á því að mæta ekki til vinnu.

Satan.

Líf mitt sem aumingi:

Ég hef nú sem endranær verið vakandi í alla nótt að fást við iðjuleysi á nýstárlegan hátt. Þótt út í það verði ei farið nánar þá skal þess þó getið að þetta hefir verið gaman. Annars er allt skítt í fréttum. Mér er farið að líða eins og aumingja og skíthæl. Nærri lagi væri að segja að mér líður eins og ég sé einskis virði. Þetta eru aðeins ein af þeim áhrifum er fylgja því að vera tvöfaldur fallisti. Til að svara ummælum Tótu um þau efni, þá veit ég bara svei mér ekki hvað skal til bragðs taka. Ég er farinn að þjást af alvarlegu fall-þunglyndi og ég bara veit ekki hvað ég á að gera (nærri því búinn að skrifa geta. Alveg jafn viðeigandi svosem). MR er miklu skárri skóli en MS. MS er miklu léttari skóli en MR. Pressa frá foreldrum um að fara í MS. Pressa frá vinum um að fara í MR (nema þessum). Mér þætti vænt um það að fá mat einhvers hlutlægs aðila í þessu máli en það virðist vera skortur á þeim.

Ég er alveg að farast. Mig vantar hjálp. Hvað ef ég fell aftur? Hvað ef ég skríð? Er það þess virði þegar ég get dúxað annarsstaðar? Get ég dúxað í MR? Af hverju veit ég ekki hvað ég vil í fyrsta sinn á ævi minni? Já, lífið er spennandi um þessar mundir. Ég hata spennu…