Plöturýni-Radiohead:

Pablo Honey
Árið 1993 gáfu Radiohead út frumburð sinn Pablo Honey. Það sést á plötunni hversu nýir þeir voru í bransanum, þó svo að þeir hefðu spilað sem underground sveit til fjölda ára. Þeir kunnu augljóslega ekki á stúdíóið og sést það best á því hversu hrá flest lögin eru. Það er lítil heild í plötunni en hún þarf ekki að líða fyrir það, enda eru öll lögin mjög góð. Radiohead öfluðu sér svo frægðar í Bandaríkjunum með útgáfu Creep þar en þeir máttu bíða í nokkur ár í viðbót áður en þeir yrðu frægir í heimalandi sínu (Bretlandi). Það er ekki þar með sagt að þú fílir þessa plötu þó þú fílir Radiohead og það er ekki þar með sagt að þú fílir restina af plötunum þó þú fílir þessa. Pablo Honey er arfagóð plata og miðað við það að þetta er þeirra fyrsta er hún einstaklega góð.
Einkunn: 7,0

The Bends
Eftir að hafa verið þekktir sem „one-hit wonder“ sveit í tvö ár gáfu Radiohead út sína aðra plötu árið 1995 en hún hlaut nafnið The Bends, en það er skírskotun í köfunarveiki. Það var öllum augljóst að þeir höfðu þroskast mjög sem tónlistarmenn síðan þeir gáfu út frumburð sinn og varð allt vitlaust í Bandaríkjunum. Vinsældir þeirra á þeim slóðum skaust upp úr öllu valdi og áður en þeir vissu af var búið að bóka þá á tónleikaferðalag um Bandaríkin sem átti eftir að vara í hálft ár. Bretar voru ekkert kátari með nýju plötuna en þeir höfðu verið með þá fyrri. The Bends sýnir það vel að batnandi mönnum er best að lifa og úir þar og grúir af frábærum lögum. Þetta er sú plata þeirra sem auðveldast er að hlusta á og ég get varla ímyndað mér að til sé sá maður sem finnst hún ekki a.m.k. ágæt. Þarna eru flest af frægustu lögum þeirra eins og t.d. High and Dry, Fake Plastic Trees, Just, My Iron Lung og Street Spirit [fade out]. Þessi plata er að mínu mati nær fullkomin og ekkert lag gefur öðru eftir. The Bends er ómissandi í safnið.
Einkunn: 9,5

OK Computer
Árið 1997 var árið sem kom þeim kumpánum í Radiohead algjörlega á kortið og með útgáfu OK Computer áunnu þeir sér heimsfrægðar á einum sólarhring. OK Computer er oft talin upp með mestu meistaraverkum síðustu aldar og mætti þar nefna hvíta albúm bítlanna og The Wall eftir meistarana í Pink Floyd. OK Computer ræðst á mann frá öllum áttum og lætur mann ekki vera fyrr en maður hefur gert sér grein fyrir snilld hennar á alla vegu. Hver nóta er meistarastykki og lögin sem þær mynda verða órjúfanleg heild er hlustað er á diskinn í heild sinni. Þemað á disknum er lífið á upplýsingaöldinni og það er ekki hægt annað en að finna fyrir því þegar hlustað er á lögin. Á þessari plötu má finna snilldarlög á borð við Paranoid Android, Karma Police, Exit Music (for a film), No Surprises, Lucky og Climbing Up The Walls. Það er erfitt að gera upp á milli laga og er erfitt að reyna að ímynda sér hvort eitthvað hefði getað verið gert betur. Meistarastykki og að mínu mati besta plata allra tíma. Heimili þitt er innihaldslaust innihaldi það ekki þessa plötu.
Einkunn: 10

Kid A
Margir misstu andlitið árið 2000 þegar Kid A kom út. Fólk hafði beðið eftir nýju meistaraverki frá þeim í þrjú ár (það virtist vera lengri tími þá) og þegar platan loks kom út missti Radiohead marga áhangendur hérlendis. Þeir höfðu gert það eina sem þeim fannst þeir geta gert til þess að falla ekki af stjörnuhimninum, en það var að skipta um stíl. Sumir segja reyndar að þeir hafi hreinlega skipt um tónlistarstefnu en ég mótmæli slíkum athugasemdum. Þegar hlustað er nógu mikið á plöturnar heyrist greinilega samhljómur með þeim öllum. Kid A kann að hafa ollið vonbrigðum hjá sumum en ekki hjá mér. Platan inniheldur nokkur af þeirra bestu lögum eins og Everything’s in it’s Right Place, How to Disappear Completely og National Anthem. Reyndar er varla hægt að taka einstök lög fyrir á þessari plötu þar sem flest lögin enda eftir að næsta lag er byrjað, allt er þetta heild sem ekki má rjúfa. Platan er huglægt hlustunarefni og er að mínu mati einhver sú fullkomnasta slökunar- eða bakgrunnstónlist. Hún á við hvar sem er.
Einkunn: 8,0

Amnesiac
Amnesiac kom út aðeins hálfu ári seinna, árið 2001. Platan inniheldur lög frá Kid A tímabilinu en þó eru þau um margt ósvipuð. Ég get í raun lítið sagt um Amnesiac annað en það að hún inniheldur þeirra versta lag að mínu mati (Pull, Pulk, Revolving Doors) en einnig þeirra fallegustu, svo sem Pyramid Song, You And Whose Army? og Knives Out. Platan er ekki jafn heildarleg og Kid A en er stórgóð engu að síður.
Einkunn: 8,5

Hail to the Thief
Núna í nótt kom svo út plata sem kom mér reglulega á óvart. Hail to the Thief er það besta sem frá þeim hefir komið síðan OK Computer gerði garðinn frægan og augljóst er að þeir félagar hafa fínpússað glænýjan tónlistarstíl. Platan inniheldur ekkert nema góð lög og er sú lengsta til þessa. Nú þegar er komið út eitt myndband við „singulinn“ There There en gefur það ekki nema örlitla nasasjón af því sem við má búast. Platan er ævintýraleg en drungaleg, grimm en einlæg, falleg en vægðarlaus. Ótrúlegt þykir mér að slík plata hafi litið dagsins ljós og það er jafnvel erfiðara að hætta að hlusta en að hætta að anda. Bestu lögin á plötunni eru það mörg að erfitt er að telja en hér eru nokkur: 2+2=5, Sail to the Moon, Go to Sleep, We Suck Young Blood (tvímælaust best), There There, I Will, Scatterbrain og Wolf at the Door. Platan rennur mjúklega í gegn en herpir þó á sálinni í leiðinni. Hin fullkomna paranoia, hinn fullkomni drungi. Platan er þó ekki þunglyndisleg, síður en svo. Þetta er rosalegur gripur að eiga og mæli ég með Hail to the Thief fyrir alla.
Einkunn: 9,5

Radiohead

Áðan (í gær skyldi ég vilja gerast tæknilegur) skruppu ég, Fífa og Steindór saman í skífuna. Þar keypti ég hina nýju Radiohead plötu Hail to the Thief, sem ég er einmitt að hlusta á núna. Eftir kaup þessi skrapp ég í partí til vinafólks bróður míns en þar var verið að fagna búferlaflutningi eins þeirra og skemmti ég mér konunglega. Eftir að hafa skutlað bróður mínum og tveimur vinum hans niður í bæ rakst ég á Anton, fyrrverandi vinnufélaga úr Ríkinu. Komst ég þá að því að þeir bróðir minn þekkjast. Já, þetta er lítill heimur. Svo lá leiðin beint heim að hlusta á Radiohead og verð ég að segja að þessi plata þeirra er enginn hálfdrættingur á við síðustu tvær plötur þeirra, þær Kid A og Amnesiac. Við fyrstu hlustun mætti jafnvel segja að þetta sé þeirra besta síðan OK Computer þó svo að ég vilji greina hana betur áður en ég fer að hafa slíkt í flymtingum. Plata þessi stenst algjörlega allar væntingar og gott betur. Einhvern tíma á morgun (í dag reyndar en ég á við þegar ég vakna á eftir) mun ég fella dóm minn um plötuna sem og allar fyrri plötur þeirra og mun hverjum dómi ljúka á stjörnugjöf. Fleira er það ekki að sinni.