111713423856977284

Í dag barst mér bréf í pósti frá Þýskalandi. Vitanlega ályktaði ég að það væri frá einhverjum málfræðingnum, leitandi ásjár minnar og ótakmarkaðrar speki á sviði málvísinda (vitanlega!). Vongóður reif ég umslagið í tætlur en varð vonsvikinn með innihaldið – vægast sagt. Í raun var þetta bréf frá einhverri (karlkyns) grænfriðungabifurkerlingu sem óskaði eftir stuðningi mínum við málstað þeirra: AÐ VERNDA HVALI! Aldrei nokkurn tíma skal ég leggja nafn mitt við málstað sem er „pro-whale“. Síst af öllu vegna þess að ég er íslendingur og fiskistofnarnir við strendur landsins eru okkar helsta lifibrauð. Annað hvort er það helmingur þjóðarinnkomunnar eða hvalirnir.

111713414550119784

Reikningar, reikningar og aftur reikningar. Ég held ég sleppi því þó að borga símreikninginn. Hef hvort eð er ekkert að gera með slíkt gargan.

Nú verður restinni af deginum varið í lestur mannkynssögu, mitt annað uppáhaldsfag (á eftir íslensku að sjálfsögðu!). Ég hef raunar lesið þetta allt saman áður og vona ég að sú staðreynd reynist mér ekki þrándur í götu (legg til að við breytum þessu í Gyrðir á gangstíg). Ég á örugglega eftir að sofna út frá lestrinum, því fátt þykir mér verra en að lesa sama námsefnið í tvígang. Nema það námsefni tengist á einhvern hátt íslenskri tungu og menningu.

111713411176849061

Í tilefni af því að ég eisaði íslenskuprófið í morgun samdi ég þessa ferskeytlu:

Íslenzk tunga er vort mál
Íslenzk tunga er vort mál
at því skalat hæðast,
í tungu vorri teygjir sál
ótrautt líf sitt mærast.

Einnig ætla ég að lýsa sjálfum mér að hætti hinna íslensku sagnaritara, er fornsögur vorar reitu:

Hann var maður lítill ásýndum, eygður mjög og vel, ljós á hár og hörund, skáldmæltur mjök, þó gramur í skapi, og fyrir það var hann nefndur Grímur hinn hamrammi. Honum óx mjög í skapi hvers kyns mótlæti er við hann var gjört, en var þó manna mætastur og vinflestur (Það skal hafa í huga að sagnaritarar vorir gerðu allt sem í sínu valdi stóð til að gera persónur sínar sem gjörvulegastar. Ekki ber að túlka þetta sem einhvers konar sjálfshól!).

Fornritakenning dagsins:
Í Prologus sínum að Snorra-Eddu afsakar Snorri Sturluson skrif eddunnar og ber það fyrir sig að hann sé kristinn og að eddan sé ekki ætluð sem aðför að kristinni trú á Íslandi. Hann gerir þannig ráð fyrir því að fólk muni vilja „krossfesta“ sig og er þetta hans leið til að baktryggja sig.
Hér kemur svo kenningin. Næsti hluti Snorra-Eddu er, eins og öllum fróðum mönnum er kunnugt, Gylfaginning. Af hverju „ginning“? Sá kafli lýsir jú koma Gylfa konungs í Svíþjóð að höll Hárs, þar sem hann spyr Há, Jafnhá og Þriðja hinna ýmsu spurninga um heiðinn sið, og eru sum svör þeirra eilítið skrýtin svo ekki sé meira sagt. Sem dæmi má taka söguna af kúnni Auðhumlu, en henni tókst með stakri snilld að geta mannveru með saltstein einan að verkfæri.
Er það mín hugmynd að Snorri sé ekki einungis að afsaka heiðnina er fram kemur í ritinu, heldur einnig fáfræði fræðimannsins sem það ritaði, þ.e. hann sjálfur. Gylfaginning heitir kaflinn vegna þess að hér er Óðinn að blekkja Gylfa konung; hann segir honum ekki allan sannleikann. Sumt af því sem Óðinn segir er satt, en annað ekki. Snorri gerir engan greinarmun þar á og er heiti kaflans kannski afsökun fyrir því að hann hafi mögulega haft óöruggar heimildir fyrir ýmsum þeim hlutum er þar koma fram. Það, er kenning dagsins.

Sannleikskorn dagsins: Sumt fólki, er þú réttir litla fingur til aðstoðar, reyna að hafa af þér allan handlegginn.