Á þeim árum er ég var unglingur

Já, þetta er ein af þeim færslum. Það fór alltaf svo óstjórnlega í taugarnar á mér þegar ég var unglingur (og gerir raunar enn!) hvað fólk hélt alltaf að ungt fólk ætti að vera hresst og skemmtilegt. Ég var nefnilega hvorki hress né skemmtilegur og mér fannst leiðinlegt að valda fólki vonbrigðum við fyrstu kynni. Nei, raunar fannst mér það ekkert leiðinlegt. Ég naut þess að vera leiðinlegur (og geri enn, mouahhmouahh!!). Hvaða hálfvita dettur það líka í hug að unglingar séu eitthvað hressir og skemmtilegir? Veit slíkt fólk yfirhöfuð hvað unglingur er?
Það fer nefnilega enn í taugarnar á mér, þegar ég er kynntur fyrir einhverju fólki (það þarf alltaf að kynna mig fyrir öðru fólki því ég kynni mig aldrei sjálfur), hvernig það dæmir mig fyrirfram sem hressan eða skemmtilegan. Svo verður það fyrir vonbrigðum. Hvers vegna tekur enginn mig til fyrirmyndar? Ég geng nefnilega alltaf útfrá því að allir sem ég þekki ekki séu leiðinlegir, enda þekki ég allt skemmtilegasta fólkið. Þannig kemur það mér alltaf skemmtilega á óvart ef viðkomandi reynist skemmtilegur, eða jafnvel „hress“.

Svo hljómar hið heilaga orð.

Skammlifað frí

Ég valdi greinileg kolvitlausan tíma til að hætta að blogga. Meðan plöntur landsins springa út í blóma springur veröldin í tætlur af geðveiki, orðaskaki og almennu kjaftæði. Mér er það lífsins ómögulegt að halda þetta út; ég verð að tjá mig! Fram þjáðir menn í þúsund löndum, heyrið rödd mína, því Corvus Nocturnus er stiginn á stokk á ný, þreyttari, pirraðri og kaffidrukknari en nokkru sinni fyrr! Eins og Fönix reis upp úr öskustónni hefur bloggari farið niður til Heljar, sigrað skrattann í rökræðum um skemmtanagildi Halldórs Ásgrímssonar og er nú snúinn aftur, skrúðbúinn í skarlatsklæðum með gyllta fjöður í purpuralitu pottloki sínu. Mun rödd mín berast um gjörvallan heiminn, þar sem ég stend á líki andskotans uppi á Skólavörðuholti, öskrandi af lífs- og sálarkröftum: „VENI, VIDI, VICI!“ **

Gærkvöldið
Í gær fórum við pabbi á Oedipus Rex í Háskólabíói. Skemmti ég mér konunglega, en pabbi hafði þó orð á því að bassasöngvarinn hefði verið ömurlegur. Þar vorum við sammála.
Eftir tónleikana lá leið okkar á McDonald’s, Skúla sjálfsagt til mikillar skelfingar, en hafa ber í huga að eftir sex ára búskap fjarri föður mínum ríkir enn hálfgerður helgarpabbafílíngur milli okkar. Pöntuðum við mat og fengum í hendur. Settumst við þvínæst við borð í miðjum veitingasalnum. Þegar við vorum rétt um bil hálfnaðir með matinn okkar var dyrunum hrundið upp á gátt og hátt í sextíu stelpur í einsleitum kjólum þustu inn með miklum látum. Svipurinn á pabba var jafnframt óborganlegur sem ólýsanlegur, og því verður ekki gerð tilraun til að lýsa honum hér. Stelpurnar fundu sér sæti hringinn í kringum okkur, og óðu uppi með skrækjum hlátrasköllum; við vorum umkringdir. „Gelgjur,“ útskýrði pabbi, svo glumdi í öllum salnum. Þögn skall á eins og lognið fyrir storminn. Einstaka „hnuss“ barst fyrir hamar vorann, steðja og ístað. Þögn. Þögnin skarst inn í hlustir okkar. Hún var óbærileg …
Öskrin skullu á eins og flóðbylgja bældra tilfinninga. Píkuskrækir fylltu vitund okkar, svo okkur var um megn, að tala hvor við annan. Flúðum við vettvang, hræddir, kaldir og blautir; hraktir og smánaðir. Lá leið okkar nú hvor í sína áttina; hvor til síns heima, og þar með lýkur frásögn þessari.

Að lokum í bili:
Þetta er eitt það fyndnasta sem ég hef séð í langan tíma. Ég held maður þurfi að vera nett klikkaður til að láta sér detta eitthvað svona í hug.

Þetta minnir mig svo á forseta vorn meðan hann sat enn á Alþingi.

———————————————–
**: Copyright Julius Gaius Caesar 49 BC