Eurovision

Einu sinni á ári blogga allir um það sama, hina margumræddu Eurovision/Evróvisjón krísu. Þá sjá ekki allir að það skiptir engu máli hvað maður kallar þessa keppni, það breytir henni ekki í eðli sínu. Um flesta hluti gildir að titillinn skiptir sjaldnast máli. Sumir beita þýskum framburði (ojróvisjon). Það finnst mér sniðugt, en sjálfur segi ég jafnan júró. Ekkert af þessu skiptir máli. Keppnin gæti heitið Magnús Leopoldsson og verið sama snilldin fyrir því. Nei, ég dreg í land með þetta. Áreiðanlega væri keppnin enn meiri snilld ef hún héti Magnús Leopoldsson.

Eurovision er það besta sem gerist á hálfþjóðlegum vettvangi. Ímyndið ykkur hvað heimurinn væri góður og fallegur ef lífið væri eitt stórt Eurovision, allt fullt af syngjandi kjánum í bjánabúningum. Það er viss fegurð í því. Fegurðin er Finnar í Klingonabúningum. Og þá kemur það sem heillar mig mest við Eurovision, það er að tónlistin skiptir engu máli, altént tel ég mér trú um það. Tónlistin er löngu stöðnuð í ’89-’95 fílingnum. Það hlustar enginn á svona tónlist, enda vinnur jafnan skemmtilegasta atriðið fremur en lagið. Nema Austurríkismaðurinn og mamma hans. Þau unnu ekki þrátt fyrir að vera langsamlega skemmtilegust. En Rúslana vann. Hún var líka langflottust. Hápunktur þeirrar keppni var samt röflið í Gísla Marteini. Gott ef hann endurtók ekki leikinn í fyrra.

Eftirmiðdegisógleði

Ég held ég hafi komist nokkuð nálægt því áðan að líða eins og óléttri konu sem ég sat í vinnunni. Á tímapunkti var ég alvarlega að hugleiða að æla ofan í ruslafötuna undir borðinu mínu svo ég gæti nú komið ógleðinni frá. Svo, eins og það væri ekki nógu slæmt að hafa magann uppi í koki, var ég með þvílíkan höfuðverk að annað eins hef ég ekki fundið. Svo til að kóróna allt saman var ég hættur að geta einbeitt mér og farinn að sjá verr en mér þykir eðlilegt.

Ég neyddist á endanum til að forða mér úr vinnunni, dauðhræddur um að aðsvif, heilablóðfall eða skyndilegur dauði biði handan við hornið. Ekkert af þessu hefur enn gerst og þakka ég því fyrir að ég er kominn heim. Samt ansi hræddur um að ég verði að leggja mig. Mér er enn óglatt …

Framhald

Svo ég bæti við fyrsta lið síðustu færslu, þá furða ég mig á því að ég, „kommúnistinn“, þyki svo róttækur í hugum Heimdellinga að vilja frið, jafnrétti og bræðralag. Orðið frelsi mun ég aldrei nota, nú þegar kanaagentar Heimdallar brúka það sem samnefnara yfir hryðjuverk Bandaríkjaforseta í Írak.

Þá þykir mér skárra að vera bendlaður við kommúnisma en þann helvítis hrylling, sem þar fer fram!

Júróvisjónblogg

Þá er komið að því sem allir evrópubúar hafa beðið eftir: Júróvisjón. Í kvöld klukkan sjö munu allir evrópubúar (auk Ísraels og fleiri asíulanda sem einhverra hluta vegna fá að taka þátt í Júróvisjón) sitja heima með munninn fullan af kartöfluflögum og Vogaídýfu (svo ég alhæfi út frá eigin reynslu) horfandi á Júróvisjón. Það er að segja allir nema ég. Sjálfum finnst mér ótrúlegt að fólk geti haft gaman að þessari tónlist. Enn ótrúlegra finnst mér að fólk sjái ekki í gegnum sýndarmennskuna sem fylgir þessari keppni. Það má vissulega færa rök fyrir því að hallærisleikastuðullinn (sem fer úr öllu góðu hófi fram) geri keppnina skemmtilega, en fyrir okkur sem getum hvorki horft upp á hallæri né hlustað á Abba er þessi keppni eins mikil martröð og flestum finnst hún skemmtileg.

Til að forðast Júróvisjón þetta árið tók ég að mér að vinna í dag. Já, heyrið það! Ég legg mig virkilega fram við að komast undan þessu suði! En ekki nóg með það heldur á ég ennþá eftir að heyra framlag „okkar“ íslendinga í þessa keppni. Það hef ég gert með því að horfa ekki á sjónvarp (ég horfi hvort eð er aldrei á sjónvarp!) og hlusta einvörðungu á útvarp allra landsmanna þegar ég hef fundið löngun til að „opna fyrir útvarpið“ eins og amma mín kallar það (löngun sem ég finn sjaldan eða aldrei fyrir).

Ég hef þannig leitt þessa keppni algjörlega fram hjá mér í ár. Ég tók annars eftir því á blogginu hans Sverris Jakobssonar að hann lítur á finnska kolegga sína sem menningarsnobbara fyrir að vilja ekki horfa á Júróvisjón. Það gæti vel verið að téðir kollegar séu þannig „af guði gerðir“ en til að taka allan vafa af ætla ég að ítreka það hér að ég er ekki minnar skoðunar af menningarástæðum. Ég einfaldlega get ekki hlustað á svona tónlist. Ég heyri aðeins suð.

Annars, jú. Það er eitt sem ég þoli ekki við Júróvisjón, þó ég reyni að láta þessa keppni ekki fara neitt sérstaklega í taugarnar á mér, en það er þetta menningarmorð sem viðgengst. Þá meina ég t.d. lögin sem Spánn sendir frá sér, en þau byrja alltaf á alveg rosalega fallegu gítarintrói, eins og í spænskum ballöðum, en svo eyðileggja þeir alltaf lagið með einhverju júrótransi eða hvað maður vildi kalla það. Ég ítreka þó enn og aftur að ég er ekki minnar skoðunar vegna einhvers menningarsnobbs. Mér finnst þetta þó algjörlega óviðeigandi, en ég veit að spánverjar gera þetta hvort eð er, enda er „meinstrímið“ þar a.m.k. tíu árum á eftir okkar. Það hlustar enginn á júrópopp lengur. Nema öll evrópa. Ég er sá eini sem er eðlilegur.