Íþróttabílar og fleira slíkt

Ætli sportbílar væru jafnvinsælir ef þeir væru kallaðir íþróttabílar? Það hljómar eiginlega svo asnalega að ef þessu yrði breytt myndi líklega engum detta í hug að kaupa þá eftirleiðis. Hmm, sounds like a plan. Héðan í frá mun ég kalla þetta fyrirbæri íþróttabíla.

Annars skipar þessi dagur sér í hóp þeirra allra verstu. Veðrið er afleitt; grámygla og væta, og svo hef ég verið eitthvað slappur undanfarið; eins og ég hafi vaknað og uppgötvað að lífið væri búið. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu en viðeigandi þætti mér að kalla þetta Þyrnirósarkomplexinn, þ.e. manni líður eins og Þyrnirós þegar hún uppgötvaði eftir væran svefn að hún væri 116 ára. Life’s a bitch.

Kannski er þetta bara vegna þess að ég eyddi helginni í að sitja fyrir framan tölvuna heima hjá föður mínum og þykjast vera að gera eitthvað merkilegt. Annars virðist vera að festast einhvers konar Birdsfílíngur við pabba minn. Með því á ég einfaldlega við að fuglar hafa tilhneygingu til að eipa allverulega kringum hann. Kann ég af því tvö dæmi. Hið fyrra er að við skrifstofuglugga föður míns voru gjarnan tvær súlur (fuglar, ekki súlur). Fuglar þessir gerðu lítið annað allan daginn en að æra föður menn með ítrekuðum tilraunum sínum til að brjóta sér leið gegnum gluggann. Ekki er hægt annað en að álykta að þeir hafi viljað borða andlit hans.
Hitt dæmið ég kann er öllu nýlegra, en svo virðist sem tvær lóur (takið eftir: alltaf TVEIR fuglar í einu!) séu að brugga föður mínum launráð fyrir utan stofuglugga hans. Þar sitja þær löngum stundum og brugga sína andans meinlegu morðseiða. Svo, þegar síst skyldi, ráðast þær á gluggann með látum miklum, urrandi og hvæsandi (slíkt er lóunnar háttur), og froðufellandi. Er það mín ætlan lóurnar hyggist syngja yfir hausamótum föður míns með öllum tiltækum ráðum, en sem betur fer hefur lítið orðið úr því ráðabruggi þeirra. Lýk ég hér máli mínu með varúðarorðum til hvers manns er telur sér standa stugg af þessum illfyglum. Það fer ekki á milli mála, lesendur góðir, að uppreisn fuglanna er í nánd!

Hvaða kvak er þetta …

Netmogginn

Það þykir mér sæta tíðindum að þessi frétt sé flokkuð sem innlend frétt.

Svo eru það nýjustu tíðindin af SprinkleNetwork, eða eins og ég myndi orða það: Fyrrum Sprinklekrimmar ræna á ný undir nýju nafni. Ég ætla rétt að vona að fólk hafi lært af fyrri mistökum.

Annars er fátt sem slær þessari frétt við: „Glöddust dönsku víkingarnir og geta nú tekið stafrænar myndir, hringt í stafrænan síma og dreypt á vodkanu sínu“. Hvurslags fréttamennska er þetta?

Yfirlit yfir líðandi stund

Ég þoli ekki þegar ég lendi á popp-öpp gluggum með auglýsingum um hvernig ég geti losnað við popp-öpp glugga.

Lítið bólar á bekkjarfélögum mínum á veraldarvefnum. Gæti verið að þeir séu hættir að iðka komur sínar hingað í Bloggheima?

Vinna dauðans á morgun og út vikuna. Ikea alla næstu helgi og svo vinna dauðans alla næstu viku. Sextán daga vinnutörn. Svona verður þetta svo í allt sumar. Sextán daga vinna og tveggja daga frí á milli. Ó já. Helgarfríin verða svo miklu betri þegar maður fær lítið af þeim.