Dagurinn

Þjónustufulltrúinn minn í bankanum til níu ára virðist vera hætt, svo ég þurfti að finna mér aðra. Þar bar raunar vel í veiði, sú sem ég fann er afar næs og notaleg, fyrir utan svo auðvitað að hún er dönsk, sem er auðvitað alltaf dálítið krúttlegt.

Fráfarandi árkvendi mun víst eiga afmæli í dag og miðað við hversu stormasöm forræðisdeila árstíðanna hefur verið upp á síðkastið verður hún að teljast heppin að fá bæði sólskin og viðunandi hitastig. Hafi hún innilegar hamingjuóskir af Laugarnesinu!

Þessi dagur hefur annars verið alveg ótrúlegur hvað stemningar varðar og nostalgískar tiktúrur. Helst langar mig til að grípa þessar stemningar, taka í sundur og rannsaka gaumgæfilega innihald þeirra og merkingu. Mann langar alltaf til að gera það sem er ómögulegt.