Hrekkir

Kassastarfsmaðurinn í 10-11, sem ég svo eftirminnilega fríkaði út, er ekkert fríkaður lengur. Þar hvarf gullið tækifæri til að stríða honum meira og áætlaður annar fasi, að mæta í búðina með varalit og konfekt, er algjörlega farinn fyrir bý. Það er erfitt að vera hrekkjóttur þegar fólk lætur ekki hrekkja sig.
Sjálfur varð ég fyrir hrekk fyrr í dag er ég fór að greiða gamla símreikninga hjá OgVodafone, en í sömu svipan og ég settist niður fyrir framan þjónustufulltrúa, hrópaði hann upp yfir sig: „Er þetta ekki þrífarinn?“

Kosningar og grænmeti

Gekk ég til kjördeildar minnar og merkti við minn frambjóðanda á kosningaseðlinum (mun auðveldara hefði verið að segja: Ég kaus áðan). Að svo búnu fór ég í Bónus að kaupa í matinn, en aldrei hefði mig órað fyrir því hve flókið það getur verið. Mig vantaði Iceberg (jöklasalat), en þeir áttu aðeins heila kálhausa. Teljandi mig ekkert hafa við svo mikið kál að gera, yfirgaf ég Bónus með fjóra hamborgara og einn rauðlauk, sem samanlagt kostuðu mig rétt rúmar þrjúhundruð krónur. Þá fór ég í það mikla hverfisforretning 10-11 og keypti niðurskorið jöklasalat, í poka, á (þorið þið að giska?) rúmar þjúhundruð krónur! Ég lýsi sjálfan mig hálfvita vikunnar fyrir þessi kaup, ekki aðeins vegna þess að fjórir hamborgarar þykja mér meira virði, heldur einnig vegna þess að kálhausinn í Bónus kostaði tvöhundruð kr. Ég er hættur að kaupa grænmeti.