108939473781466231

Rétt í þessu rakst ég á þessa síðu, en þar er í tvígang minnst á Blogg satans, sem heitir raunar öðru nafni núna, eins og varla hefur farið framhjá mörgum lesendum þessa bloggs. Ekki veit ég í hvaða samhengi fólk talar um blogg þetta – hvort verið sé að mæla með því eður frá – en það er gaman að sjá að lesendahópurinn er aðeins stærri en ég taldi mér trú um, burtséð frá því hvort fólk les sér til skemmtan eður gremju.

Sérstaklega þótti mér merkilegt að sjá þau ummæli drCronex: „Blogg satans…horfið!“ Ég ætla rétt að vona að bloggið hafi ekki versnað við nafnbreytinguna …

108939150008892678

Ég er búinn að fá staðfest frí í annarri vinnunni minni, bæði fyrir Ítalíuförina og hringveginn. Þá er bara eftir að fá frí frá hinni vinnunni. Það varð mér ljóst í gær að þegar ég loksins fer utan mun ég hafa unnið í rúman mánuð, samfleytt og án nokkurra frídaga eða helgarfría. Það er ekkert sældarlíf að þurfa að vinna alla daga, en það verður vel þess virði þegar líður að ferðadægrum.

108933925564867775

Ég get ekki sofið, það er of margt að hugsa um. Ég hef raunar lengi verið þannig að ég get ekki hætt að hugsa um hitt og þetta þegar tími er kominn á svefn, og get þ.a.l. ekki sofnað. Ég hef alltaf haft gaman af að segja sögur og nóttin er heimsóknartími músanna; þegar hugmyndaflæðið er taumlaust. Furðulegustu hluti hugsa ég um – svo furðulega jafnvel að ég þori varla frá að segja – og er það tilgáta mín, að þar sé komin útskýringin á draumförum mínum, sem jafnan eru skrautlegar svo lítið sé sagt.

En nóg um það síðar. Ég sofna fyrr ef ég leggst fyrr.