109008780448082414

Síðasta laugardag taldi ég alla kúnna sem ég afgreiddi í Ikea, en þeir reyndust vera um 163 talsins. Í dag hugðist ég gera það sama. Það kom enginn. Það var ekkert að gera í allan dag, en ég kunni ágætlega við það, þar sem ég er einstaklega ómannblendinn.

Í gær var haldið upp á afmæli Tótu og af því tilefni var farið á Ara í Ögri. Sannaðist enn hve ómannblendinn ég er, en þegar mér fannst forkunnarfögur stúlka gefa mér undir fótinn (dæmi hver fyrir sjálfan sig, ekki ætla ég að fullyrða um raunverulegan ásetning stúlkunnar, enda ölvaður og þ.a.l. ekki dómbær), sagði ég ekkert og gerði ekkert. Ég sat bara þarna og horfði sneyptur út í loftið. Já, mér leiddist. Ég þoli ekki miðbæinn.

 
Á Ara voru tveir gítarströmmarar að spila hin fyrirsjáanlegustu lög. Svo, þegar minnst varði, kölluðu þeir Þorvald Davíð Kristjánsson upp úr áhorfendaskaranaum (í raun var enginn að fylgjast með þeim svo varla er hægt að tala hér um áhorfendur) og báðu hann að syngja Hjálpaðu mér upp eftir Nýdönsk. Tók hann hina bestu Bjarnar Jörundar eftirhermu sem ég hef heyrt og á hann hrós skilið. Bað ég hann, að því loknu, að skila kveðju til Bibba. Ekki veit ég hvort sú kveðja komst til skila.