109035865721770018

Alveg er ég viss um að enginn hafi tekið eftir dönskunni í síðustu færslu.

 
Þegar ég horfi á sjálfan mig í spegli fyllist ég nær óstjórnlegu hungri – ekki vegna þess að ég er svo mikið nammi, heldur vegna þess að ég er svo mélkisulegur að mér finnst ég verða að borða, svo ég endi ekki eins og einhver frá Eþíópíu.
 
Margir af mínum vinum og kunningjum segjast dreyma s.k. blauta drauma, þ.e. drauma sem þeir eiga mök við júngfrúr. Það henti mig, þegar ég lagði mig áðan, að mig dreymdi að ónefndur félagi ætti mök, ölvaður og undir stýri á rauðum sportbíl. Það var vægast sagt óþægilegur draumur. Kannski sérstaklega vegna þess að ég var farþegi í bílnum.
 
Draumurinn í heild sinni var vægast sagt nöturlegur. Kannski vegna þess að hann endurspeglaði mitt daglega líf nákvæmlega eins og það raunverulega er (að undanskildum ölvunarakstursmökunum).
Í draumnum vann ég alla virka daga, en átti þó frí um helgar, sem ásamt fyrrnefndum mökum var eina frávikið frá sannleikanum. Í draumnum hundleiddist mér vinnan, rétt eins og í alvöru, og um helgar drakk ég. Skipti þá engu máli með hverjum ég drakk eða hvert ég fór, ég hitti sama fólkið aftur og aftur, og endaði á ávallt að hanga með því.
Draumurinn spannaði í heild sinni um tveggja vikna tímabil. Ég er ekkert hvíldur eftir blundinn.
 
Ég er orðinn bitur að eðlisfari. Enda ærin ástæða til. Lífið verður óneitanlega leiðinlegt þegar maður gerir ekkert lengur nema vinna, sofa og borða.Nema vinnan sé skemmtileg, sem hún er ekki. Eftir níu daga verður þó breyting á, því þá skal haldið til Rómaveldis ins forna (já, ég sagði ins!), kneyfað kaffi, bjór og vín; étið pasta af trogi og heimsmálin rædd á inni (já, ég sagði inni!!!) fegurstu ítölsku.
 
Mig vantar áhugamál og lýsi hér eftir slíku. Allar hugmyndir að áhugamálum berist mér í tölvupósti. Það skal þó tekið fram að ég mun aldrei taka upp þá auvirðilegu iðju að dýrka sport (ísl. iðka íþróttir).
 
Ein íþrótt er raunar til, sannkölluð íþrótt íþróttanna, og kallast knattleikur. Er það mín hugmynd og hefur raunar lengi verið, að hefja hina fornu þjóðaríþrótt vora aftur til fyrri vegs. Myndi íþróttin þá vera stunduð á veturna á Reykjavíkurtjörn og æfð á sumrin í Skautahöll Reykjavíkur. Ef tjörnin er ekki frosin strax í september, í upphafi leiktíðar, myndi borgin sjá til að hún yrði fryst. Leikmenn myndu smíða sínar eigin kylfur og boltinn yrði áþekkur hafnabolta. Myndi hver leikmaður hafa hljóðnema svo allir viðstaddir gætu heyrt er þeir kvæðu rímur undir hinu fallegasta fornyrðislagi. Myndu svik komast upp um síðir (sbr. Gísla saga) og yrði dramatíkin mikil. Eina reglan væri markareglan og væru engir dómarar til að skakka leikinn ef til áfloga brytist. Íshokkí hvað? Knattleikur er málið!