109395239281623577

Þessa stundina sit ég á Bibliotheca Schola Babtisteria, eða bókasafni Menntaskólans við Sund. Ástæða þess mun vera sú að ég gerði ekki ráð fyrir því að íþróttatíminn ætti sér stað utandyra í þessu fárviðri andskotans. Slíkar pyntingar þykja mér með öllu ótækar og afréð ég af þeim sökum að brokka eigi á inniskónum (þ.e. íþróttaskóm er ætlaðir eru til innandyranotkunar), líkt og sannri hetju sæmdi. Ég er antí-Kjartan/Gunnar whatever.

Njála, alla vega enn sem komið er, er stök snilld. Húskarlavígin voru alveg frábær, þó sérstaklega eftirfarandi atriði:

Njáll ríður til þings um sumarið og synir hans. Gunnar var á þingi. Njáll tók upp fésjóð er hann hafði heiman. Skarphéðinn spyr: „Hvað fé er það faðir?“
„Hér er fé það,“ segir Njáll, „er Gunnar greiddi mér fyrir heimamann vorn fyrra sumar.“
„Koma mun það til nokkurs,“ sagði Skarphéðinn og glotti við.
Virðast feðgar deila skarpskyggni sinni, enda fyrirætlan Bergþóru harla augljós.

109390482355257479

Ég er ekki frá því að skammdegið sé þegar farið að hafa áhrif á skaplyndi mitt. Annars náði ég mér í forritið Radio@Netscape. Lofa þeir ókeypis aðgangi að 175 útvarpsstöðvum sem að forritinu standa. Þá varð ég fyrir vonbrigðum að finna ekki útvarp allra landsmanna meðal þeirra stöðva. Þar kennir þó margra grasa, t.a.m. Led Zeppelin-stöð, Doors-stöð og Acoustic Blús-stöð.

109389998644865038

Amma mín fer jafnan mikinn í háðsglósum sínum og fordæmingum á öðru fólki, svo lokar hún fyrir eigin rökskilning þegar við hana er átt. Það er einfaldlega ekki hægt að rökræða við svona fólk. Þegar þannig er í pottinn búið, fer fólk að segja hluti sem það sér eftir. Ekki sé ég eftir neinu en ég vona hennar vegna, að hún geri það.

109389212048078492

Það hendir mig oft að fólk hringir í mig þegar ég les (ég les mikið). Þegar ég er spurður hvað ég sé að gera, segist ég „bara vera að lesa,“ og sá sem hringir svarar: „Já, ókei“ og heldur áfram að tala! Það er semsagt ekkert merkilegt að ég sé að lesa og það er þá allt í lagi að trufla mig, bara vegna þess að ég er að lesa. Þegar ég segist vera að lesa, ætlast ég til að fólk taki því eins og ég sé í bíó. Ekki veit ég hvort því er eins farið með aðra, en þegar ég hringi óafvitandi í bíógesti afsaka ég mig sem mest ég má – á eins skömmum tíma og auðið er – áður en ég legg á. Sjálfur fer ég sjaldan ef einhvern tíma í bíó en stunda bækurnar af meiri krafti. Þegar ég les, þá les ég. Bókin nýtur óskiptrar athygli minnar meðan ég les, sama hvaða gylliboð ég fæ (nema fríkeypis máltíð á Ítalíu eða boðsmiði með fyrsta flugi til lands af sama nafni). Mér finnst fólk mega taka tillit til þessa. Ég veit þó reyndar að það er borin von. Það þykir víst annars flokks afþreying að lesa nútildags.

109387410540467516

Skemmtilegasti skóladagurinn til þessa. Hagfræðikennarinn hélt mér eftir tíma og bað mig vinsamlegast um að stilla sér ekki upp við vegg með skotum á ríkisstjórnina, en skömmu áður hafði ég gert athugasemd við áætlun stjórnvalda að draga úr þenslu og lækka skatta á sama tíma. Þó hún væri mér sammála, að þær aðgerðir eigi ekki við rök að styðjast, er henni víst fyrirmunað að tjá sig um stjórnmál við nemendur.

Talandi um „stjórnmál“ virðist ekkert lát ætla að vera á Heimdallartíðendum. Gaman þykir mér að hvernig stúlka er kynnt til sögunnar: Helga Björgvinsdóttir Bjargardóttir. Er Björgvin þessi, faðir hennar, þá kynskiptingur eða hvernig stendur á því að hann er dóttir þessarar Bjargar?

109380593912033872

Fyndið þykir mér, að nær enginn þekkti Forest Whitaker, fyrr en hann kom til landsins. Undanfarin ár hef ég oft minnst á hve mikil synd það er, að Whitaker leiki svo sjaldan í kvikmyndum. Hafa svörin oftast verið á þá leiðina, að viðmælendur mínir vita ekki hvern ég á við. Nú hefur þó orðið kúvending. Vissulega er það gott að fólk þekki orðið manninn (enda snillingur!), en þetta segir hins vegar mikið um almenna þekkingu fólks. Auk hinna frægustu þekkir fólk aðeins „Íslandsvini“.

Og þetta er fyndið.