109207202825725828

Ég játa það fúslega að ég hef frá litlu að segja í dag. Best þykir mér að skrifa þegar ég er grautfúll yfir einhverju, en því er ekki að skipta. Ekki að ég sé í góðu skapi. Ekki láta ykkur detta það í hug.

Ef eitthvað, þá dregur það helst til tíðinda að vinur minn var að koma úr „löngu fríi“ og hefur opnað bloggsíðu. Um er að ræða gamla kempu í Bloggheimum, þó ófrægur og -aktívur sé, og fóstbróður. Nei, maður hugsar lítið um smithættu sem barn.

Halldór Ásgrímsson er annars eitthvað að eipa með lobbýistum Evrópusambandsins. Bind ég vonir mínar við að ekki takist að draga okkur inn í það déskotans félag, sjálfstæðis okkar sem þjóðar vegna.

109201278160790573

Ég þoli ekki þegar fólk segir að eitthvað sé það eina sem „blífar“, þá væntanlega í merkingunni að duga. Þetta er ekki íslenska. Þetta er ekki einu sinni danska, þar sem sögnin at blive í dönsku þýðir að verða að einhverju. Þeir sem þetta brúka, réttlæta notkunina á þeim forsendum, að það sé hreintungufasismi að andmæla þessu. En þetta þýðir ekki neitt! Er þá í lagi, eins og KB banki gerði, að segja NAMVS EST LIFSTILLVM, sem þýðir ekki neitt, vegna þess að það sé hreintungufasismi að andmæla því, hvort sem um ræðir afbökun á latínu eður afbökun á íslensku? Nei, því get ég einfaldlega ekki verið sammála. Dæmið hið fyrra, er hvorki íslenska né danska og dæmið hið síðara, er hvorki latína né íslenska. Nei, ég held það sé betra að sleppa því yfirhöfuð, að láta svona vitleysu út úr sér.