109502381656892502

Í gær voru þrjú ár liðin frá hryðjuverkaárásunum sem gerðar voru á Bandaríkin; aðdraganda tröllreiðar Bandaríkjanna yfir austurlönd sem enn sér ekki fyrir endann á. Að venju var þessa minnst, þó mesta harmleiknum sé vitanlega sleppt úr pakkanum. Sama dag var fjallað um forskot Bush á Kerry í skoðanakönnunum. Það er ills viti að bandarísku þjóðinni virðist vera sama um ódæði hans, þó Kerry sé enginn engill.

Í gær var líka ár frá morði Önnu Lindh.

Ég sá lítinn strák í vinnunni í dag, á að giska eins og hálfs- til tveggja ára, sem leit nákvæmlega eins út og ég gerði á þeim aldri (ég vona að ég eigi hann ekki). Í á að giska þrjár sekúndur fann ég mikla þörf á að fjölga mér, vafalítið einhverjum til mikils hryllings. Sem betur fer var kennd þessi skammlifuð, enda verð ég seint talinn efni í gott foreldri, og þaðan af síður áhugasamur um uppeldi.

Í nótt dreymdi mig hroðalegan draum. Þar komu fyrir þeir Brynjar og Þorkell, vinir mínir. Einnig kom fyrir myndavél (e. vídjókamerã) og kettlingur nokkur sem varð undir hjólbarða á bíl, en lifði þó slysið, og þjáðist mjög. Mér leið ekki vel þegar ég vaknaði upp af draumi þessum um nóttina miðja. Tel ég það mér til tekna að hafa náð að sofna aftur. Þó ekki draumsins vegna. Ég þjáist af svefnörðugleikum, sem felast í að þegar ég þarf að gera eitthvað er ég sífellt þreyttur, en þegar ég reyni að sofna tekst það ekki. En þegar ég sef, þá dreymir mig. Það tel ég kost. Ef ekki væri fyrir drauma væri hundleiðinlegt að sofa.

Eggjaði ég sjálfan mig til að ganga í vinnuna, sem er afrek í sjálfu sér, alltént þegar ég á í hlut. Ætla ég að gera það aftur? Hreint ekki ólíklegt.

Þetta finnst mér fyndið, þó sérstaklega þar sem sagt er: „… þykir vera óhugnanlega líkur Hitler í hlutverki sínu.“ Mér þykir Hitler engan veginn óhugnanlegur, fremur kjánalegur. Alltént hvað útlitið snertir.