109588925885263475

Hér sést gjörla munurinn á fréttaflutningi Fréttablaðsins og Moggans. Dæmi hver fyrir sjálfan sig.

Í dag kom eitthvað dáleiðslufífl í skólann. Ég missti af því, en ég hefði viljað vera þar og láta drauminn rætast: Að fara upp á svið sem sjálfboðaliði og látast ekki dáleiðast, til að sanna mál mitt, að svona karlar eru svikarar sem græða á trúgirni almúgans. Ég hef áður lýst skoðun minni á dávaldinum Derren Brown svo afstaða mín til þessa ætti ekki að koma neinum á óvart.

Einhver kom inn á Bloggið um veginn gegnum leitarvél, leitandi að greinum um „tilfinningagreind“. Skamm, hver sem þú ert! Það á ekki að trúa á svona þvælu.

Horfði á Jurassic Park, þegar ég hefði átt að vera að gera eitthvað vitrænt. Skemmst frá því að segja að hún eldist illa, uppáhaldsmyndin mín árið 1993.

Lag dagsins: The Sound of Silence – Simon & Garfunkel

109587143286376142

Ég er viss um að engum þótti síðasta færsla fyndin.

Ef þú spyrð sex ára strák að því hvað hann vilji verða þegar hann verður stór, benda allar líkur til þess að hann vilji verða lögga. Sumir vilja m.a.s. gerast „leynilöggur“. Ef börn vissu hvað etýmólógískar rannsóknir á latínu, grísku og germönskum málum eru miklu meira spennandi en að vera lögga væri heimurinn sjálfsagt betri staður. Væri það ekki gott ef í stað þess að hlaupa úti í „Löggu & bófa“ í kennaraverkföllum, sæti barnið þitt heima að dútla sér við að rekja skyldleika latínu og frumgermanskra mála með hjálp germönsku hljóðfærslunnar? Væri ekki gaman ef barnið þitt tilkynnti þér að orðið höfuð væri í raun og veru lexíkalíseruð latína? Sjáið nefnilega til, málfræðin er til margs brúkleg, þ.m.t. að halda barninu þínu frá öfgum ofbeldisins og glundroðanum sem ríkir á götum úti (hafið þið litið út um gluggann? ÞETTA ER FRUMSKÓGUR!!!).

Það er miklu meira töff að kunna málfræði en að vera lögga. Hvað getur lögga gert ef hún er beðin um að fallbeygja „skessan étur gimbrina“ í þskt. þm. ft.? Ekki rassgat! Hún á ekki fokkíng séns.

Hinn daglegi Lúður

Úr dagbók lögreglunnar:

Koðrán Styrkársson Andersen, sakborningur í Núpalindarmálinu, játaði í dag sekt sína og leiddi lögreglu að felustað líks Ástvalds G. Eiríkssonar, hafnarverkamanns, í Hafnarfjarðarhrauninu á ellefta tímanum í morgun. Kom lögreglu það í opna skjöldu, að umrætt lík var eigi téður Ástvaldur G., heldur Geirfinnur Einarsson, hver lengi hefur oss týndur verið. Neitar Koðrán allri vitneskju um örlög Geirfinns. Vegna útsynnings, hundslappardrífu og lítillar þolinmæði lögreglu, var eigi leitað áfram, að líki hins eiginlega fórnarlambs.

Hefur ákæruvaldið brugðið á það ráð, að vegna dræmra leitarskilyrða, skorts á sönnunum og hræi Ástvalds G. Eiríkssonar, skuli hr. Koðrán Styrkársson Andersen ekki ákærður fyrir morðið á fyrrnefndum Ástvaldi G., ástkærum eiginmanni Gunnhildar af Brekkulæk. Skal hann þess í stað sæta fangelsisvist fyrir morðið á Geirfinni Einarssyni, hver hefir svo lengi oss týndur verið. Var Koðrán ekki til andmæla, enda fyllstu varúðarráðstafana gætt, í að hann fengi ekki að njóta réttar síns.

Aðspurður segist Geir Jón Þórisson, vor háborni lagavörður í Níkeulíki, ekkert vita um afdrif líks Ástvalds G. Einarssonar, en að það megi síðar brúka í öðru ákærumáli, sama af hvaða toga það svo yrði – morðmál eður ei. Segir Geir Jón, að í lagi sé að brúka lík með slíkum hætti, enda komi steinninn á sama stað niður. „Glæpamenn eru glæpamenn.“

Steindór Pedersen.