109838497876386247

Ég hef hafist handa við heimildaleit fyrir ritgerðina mína. Fyrst leitaði ég um alla málvísindahillu Bóksölu stúdenta og varð fyrir sárum vonbrigðum. Þar er einfaldlega ekkert sem tengist samanburðarmálfræði eða etýmólógíu. Þar voru að vísu ýmsar áhugaverðar bækur, svo sem Codex Wormianus And The First Grammatical Treatise, en ég get alltaf lesið það síðar.
Með sárt enni yfirgaf ég Bóksöluna og hélt rakleiðis yfir götuna í átt að Bókhlöðunni. Þar fann ég þrjár bækur sem hugsanlega gætu hjálpað mér:

1. A comparative grammar of the Anglo-Saxon language : In which its forms are illustrated by those of the Sanskrit, Greek, Latin, Gothic, Old Saxon, Old Friesic, Old Norse and Old High-German

2. The eastern origin of the Celtic nations proved by a comparison of their dialects with the Sanskrit, Greek, Latin, and Teutonic languages

3. Germanic texts and Latin models: medieval reconstructions.

Vandamálið er að ég hef ekki grænan grun um hvort þær raunverulega geti hjálpað mér þar sem þær lágu inni í geymslu – sem var lokuð. Skemmtilegt, eða þannig. Ég verð víst að gera mér aðra ferð á morgun á venjulegum skrifstofutíma þegar geymslan er opin.

109836029460808719

Þetta er fyndið. Sérstaklega setningin „Vörðurinn ætlaði í hann og spurði jafnframt hvað hann héldi að þessir Íslendingar væru, að kalla sig heimsmeistara. Þeir væru bara fífl“. Auðvitað erum við fífl að hreykja okkur af einhverjum asnalegum hrossum bara vegna þess að þau geta tölt. Og að hugsa sér að ekki aðeins eigum við umboðsmann íslenska hestsins (!), heldur eigum við einnig heimsmeistara í tölti. Það hlýtur að vera ömurlegasti heimsmeistaratitill allra tíma á eftir heimsmeistaranum í prumpi.
Ekki að vörðurinn sé eitthvað minna fífl. Ef eitthvað er þá er hann meira fífl að láta einhver hallæristryppi (þá á ég ekki aðeins við Jónas R.) ergja sig.