109864462016298106

Ótrúleg þessi neytendalúnasía sem aftur endurspeglast í markaðshyggjubrjálæðinu. Fólk er svo ólmt í að kaupa jólavarninginn að fyrirtækin keppast um jólamarkaðinn og auglýsa jólahitt og -þetta svo snemma sem í október. Þetta gengur svo langt að fyrirtæki státa sig af því að hafa verið fyrstir til að auglýsa. Kannski mun þetta á endanum ganga svo langt að verslanir auglýsi jólavarninginn að sumri til; eða kannski gengur þetta svo langt að markaðssetningin fer í hring og fólk kaupir vörur fyrir jólin 2008 árið 2006?

Smá málfræðifasismi: Ég tek æ oftar eftir því að fólk skrifar „stemming“ en meinar stemning. Orðabókin segir raunar hvorttveggja vera rétt, en aðgætið eitt: Til er sögnin „að stemma“, sem þýðir að eitthvað gangi upp eða sé rétt. Þannig mætti t.a.m. segja að maður sem gerir upp peningakassa sé að stemma hann. Stemming væri þá sá gjörningur að stemma. Það er alla vega hægt að setja það fram þannig, þó málfræðiyfirvöld samþykki það kannski ekki?

Eitt að lokum með þeim fyrirvara að Bibbi leiðrétti mig ef ég fer með rangt mál: Bibbi minntist á það fyrir nokkru að hann langaði til að geta farið út í banka og fengið gull fyrir peninginn sinn. Þá spyr ég: Hvers vegna vill Bibbi fá launin sín greidd í gulli? Eru nokkrir bankar til sem versla með gull? Enn fremur bendi ég á að góðmálmar þurfa ekki að liggja að baki gjaldmiðli. Það nægir að gjaldmiðillinn sé almennt viðurkenndur sem slíkur og að hann sé notaður. Sönnun: Krónan er ekki ávísun á gull en er samt gjaldmiðill. Q.e.d.