Gátan leyst

Tæpum klukkutíma eftir að henni var varpað fram. Rétt svar er Mikhael Bulgakov, en hann er höfundur klassískra bókmenntaverka á borð við Hundshjarta og Meistarinn og Margaríta.
Jóhannes Snævarr gat rétt og hlýtur því verðlaunin eftirsóttu: The Hitchhikers Guide To The Galaxy eftir Douglas Adams.
Næstir í röðinni, sem því miður fá engin verðlaun:
2. Páll Hilmarsson
3. Gísli Ásgeirsson
Þakka öllum þátttökuna.

Getraun – fyrsta vísbending

Fyrsta vísbending:
Spurt er um nafn á manni sem fæddist í Kiev árið 1891. Árið 1909 hóf hann nám til sjúkraliða og útskrifaðist árið 1916. Þá var hann kvaddur til herþjónustu og gegndi hlutverki sjúkraliða á suð-vesturvígstöðvunum til 1918. Árið 1919 fór hann til norður-Kákasus til að starfa á hinum ýmsu hersjúkrahúsum. Það ár voru birtust nokkrar greinar og örsögur eftir hann í ýmsum staðardagblöðum. Árið 1921 fluttist hann til Moskvu og árin 1922-23 var hann orðinn reglulegur penni í dagblöðunum Nakanune og Gudok.

Öll svör sendist á netfangið mitt: arngrimurv@simnet.is

110199796249375251

Senn lýkur síðasta skóladegi þessarar annar. Þá tekur við vinnudagur sem var því sem næst þröngvað upp á mig. Á sama tíma er nærveru minnar óskað í blóðbankanum, en það ku vera alvarlegur skortur á dreyra A+ Rhesus. Ekkert nýtt undir sólinni semsagt. Kemst þó ekki til að láta tappa af mér fyrr en á morgun, sökum vinnu. Vona að enginn deyi á meðan.
Þar sem verðlaun síðustu getraunar ganga ekki út mega lesendur b.v. eiga von á annarri getraun. Ekki er enn útséð um eðli hennar. Það fer alfarið eftir mínum helstu hugðarefnum þá stundina sem hún verður lögð fram.
Mér skilst að jóladagatal Sjónvarpsins þetta árið sé sjálfur stærsti gimsteinninn í krúnu þáttagerðar RÚV: Á baðkari til Betlehem. Ef mig brestur ekki minnið var illmenni þáttanna vond, svartklædd galdranorn. Til að sleppa úr klóm hennar nægði krökkunum að vefja henni inn í teppi og fljúga burt á Chitty Chitty Bang Bang baðkeranna.