Óskalisti

Séu menn í nokkrum vafa um hvað mig langar í jólagjöf langar mig einna helst í tvennt:

1. Órangútan. Skal hann heita Hannibal Loðvík, I. stórmoffi af Laugarnestanga og skal hann vera af ætt silfurapa (simius argentus). Hann mun vera virtur af mörgum en hataður af sumum, strangur en réttlátur höfðingi, vinur erlendra konunga, barúna og hertoga, velgjörðarapi allra hlunnfarinna og bágborinna stétta; fróður en þverfaglegur í hugsjónum sínum; mikilfenglegur en alþýðlegur; dagfarsprúður og hvers manns hugljúfi. Hann skal vera manna færastur í öllu því, er hann tekur sér fyrir hendur; sinn eigin makker, ráðgjafi og trúnaðarmaður. Skal hann verða vor fyrsti ómennski ráðherra, forseti Alþingis og þjóðar allrar. Mun hann lúta í lægra haldi fyrir engum nema dróttni sínum, herra og skapara.

2. Bókina Evangelísk-kristileg Messu-söngs- og Sálma-bók, að konunglegri tilhlutun samantekin til almennilegrar brúkunar í kirkjum og heima-húsum og útgefin af því konunglega íslenska Lands-uppfræðingar félagi.

Ég skil ekki jólalög

Um daginn heyrði ég klassískt jólalag, en ég hef aldrei náð textanum í viðlaginu. Það sem ég heyri er: Gaman er að geta um jól, ég hvarf sem lítið barn. Það er nú ekkert sérstaklega fallegt eða jólalegt, svo ég bið lesendur sem vita sannleikann, að segja mér hvernig þetta á að vera.

Annar texti, sem ég þó greini, fer alveg rosalega í taugarnar á mér: Hvers vegna eru ekki jólin sérhvern dag, sérhvert andartak, eins og fallegt lag? Hvurslags merkingarlaust bull er þetta eiginlega?

Í öðru lagi, sem ásamt næsta lagi á undan var á hryllingsplötunni Rokk og Jól, er viðlagið „Nei, nei, ekki um jólin“, í engu samhengi við textann á undan, þar sem talað er um að elda jólamatinn og klæða sig upp. Ég botna hvorki upp né niður í þessu.

Og hvers vegna telst „Þyrnirós var besta barn“ vera jólalag? Það er alveg steikt!