Glæpir og refsingar

Ég hef ákveðið að svara athugasemd Ásgeirs við þessa færslu sérstaklega:

Refsingar hafa ekki fælandi áhrif á glæpamenn og draga því ekki úr glæpatíðni. Flest afbrot eru framin án tillits til refsingarinnar. Ef refsingar eru þyngdar hafa þær aðeins fælingarmátt til skamms tíma, og þótt í fyrstu virðist að dregið hafi úr afbrotum, fer þeim smám saman fjölgandi aftur, uns afbrotatíðni hefur náð fyrra eða hærra hlutfalli. Þetta sést sérstaklega vel á tíðni kynferðisafbrota, sem hefur farið í bylgjum gegnum tíðina, en alltaf náð sínu striki aftur, þrátt fyrir sífellt harðari refsingar. Hvað varðar menn á gulum hondum, eins og Ásgeir orðaði það, eru refsingar máttlausar. Þeir sem gera út á að vera ökuníðingar láta sig refsingarnar engu varða og keyra jafnvel próflausir. Refsingar eru fremur styrkjandi fyrir sjónarmið þeirra, en þeir gera þetta flestir spennunnar vegna; það er meira spennandi að keyra próflaus eða á síðasta punkti en ella.

Eins og Nietzsche sagði eru refsingar ekki til forbetrunar. Fangar forherðast frekar gegnum refsingar, fangavist sína og samskipti við aðra fanga. Þetta kallast lærð frávikshegðun og hefur margsinnis verið sýnt fram á. Refsingar eru ekki til að draga úr glæpum og harðari refsingar eru aðeins til friðþægingar hefndarþyrstum almenningi.

Ókind ≠ ekki kind

Það virðist vera vinsæl skýring á orðinu ókind, að ást íslendinga á skepnunni hafi verið svo mikil, að allt sem ekki var kind hafi verið slæmt eða af hinu illa. Sjálfur hallast ég að annarri skýringu. Þó það sé óveður þýðir það ekki að það sé ekkert veður. Hið sama er uppi á teningnum með ókindina. Hún er vissulega kind, en hún er hið mesta ólíkindatól og hana ber að varast, ellegar munu menn engu fyrir týna nema lífinu.
Rétt í þessu uppgötvaði ég hræðilegt samspil sturtu minnar og klósetts. Nánari athugana er þörf, svo hægt megi ganga úr skugga um sannleiksgildi þessa hryllings. Ekki ætla ég mér að hrapa að ályktunum þegar alvarleiki málsins er jafn mikill.

Uppfært:

Það reyndist tilviljun að það flæddi vatn úr sturtuhausnum þegar ég sturtaði niður í nótt. Það staðfestir hávísindaleg athugun mín og hefur yfir allan vafa. Ég get því andað rólegar.