Sem skynlaust skordýr

Það skiptir engu hvort um er að ræða þriggja vikna prófatörn eða átta daga. Það kemur allt á sama stað niður, þ.e. á skynjun og hugsun. Skynjun vegna þess að átta daga prófatörn er alveg jafn lengi að líða og þrjár vikur auk þess sem skammdegið setur visst strik í reikninginn. Hugsun vegna þess að hún sljóvgast þar til engin hugsun stendur eftir, aðeins taugaboð, eins og í skordýrum. Eftir prófin mun ég svo vinna fyrir sænska kapítalið eins og hermaur fyrir drottningu. Arg!

Hvað gerir þessi Bjúgnakrækir?

Ekki veit ég fyrir hve mikla siðsemi Faldafeyki var breytt í Bjúgnakræki. Þvert á móti þykir mér nafngift hans óbærilega tvíræð og myndræn. Hið minnsta myndi ég ekki vilja mæta Bjúgnakræki í dimmu húsasundi. Sem sýnir að ég er ekki jafn hugaður og lögreglan, sem hætti sér ofan í dimman og djúpan helli gagngert til að finna hann.

Ekki eins og Silja, sem fann Grýlu, hafði hana heim með sér og geymir nú undir rúminu sínu.

Hægðir og hvernig má gera þær betri

Nú þekki ég ekki þann stílsnillíng sem hinn svo vatnsausni köttur er, en þetta er sem mælt úr mínum tranti. Það hefur verið eitt minna æðstu verkefna, alveg frá því ég fékk nóg af afætulíferni mínu í híbýlum móður minnar, að skipuleggja í þaula innihald bókaskápsins sem ég hyggst koma fyrir á náðhúsi minnar fyrstu íbúðar. Þar þarf að vera fjölbreytt úrval, en því má þó ekki ofgera. Ekki viljum við að brúkendur sjálfs súlnasals salernanna séu lengi að velja og missi þannig allt niður áður en þeir ná að finna eitthvað við þeirra hæfi, er það? Með þetta í huga hef ég þrengt valið niður og flokkað ritavalið eftir hægðaflokkum í þægilegt kerfi sem vel má samræma.

Hægðaflokkar eru flokkaðir eftir tölum og bókstöfum. Tölurnar tákna styrkleika, þ.e. hraði, frá einum upp í þrjá, þar sem einn er vægastur og þrír er mestur. Bókstafirnir tákna þykkt frá a og upp í c, þar sem a er fljótandi en c er harður. Í báðum flokkum telst miðjukosturinn innan eðlilegra marka, þ.e. 2b væru fremur hversdagslegar hægðir, en 3a aftur á móti, væri fremur extrím.

Eftir þessu kerfi, sem aftur skal tekið fram að er samræmanlegt og því ekki úr vegi að lesendur tileinki sér það, hef ég svo flokkað bókakost náðhússskápsins í eftirfarandi töflu:

Taflan skýrir sig eiginlega sjálf, en sem dæmi fyrir 3a tilvik er gott að lesa eitthvað fljótlegt og hárbeitt, eins og Dilbert. Hversdagsleikanum 2b nægir að lesa pólitík til afþreyingar, en fyrir harðlífi 1c má lesa styttri ævisögur, t.d. ævisögu Kurts Cobain. Vitaskuld eru ekki allir nauðbeygðir til að fylgja mínu kerfi eða velja sömu bækur, en hentugast væri fyrir alla áhugamenn um salernisrit að koma sér saman um eitthvert kerfi, láta það heita fínu nafni (t.d. Hudsonkerfið) og samræma. Þannig þurfa salernisgestir ekki í sífellu að venja sig á ný kerfi og eiga því greiðari aðgang að bókahillum yðar.