Föt og klipping

Hvergi bólaði á Ásgeiri, enda mæta öryggisverðirnir sjaldnast fyrir klukkan sex. Hins vegar má segja að ég verði ekki beinlínis ræfilslega klæddur á Aðfangadag, onei. Svona fín föt hef ég aldrei áður átt. Ekki spillir heldur fyrir að ég fór fyrr í dag og borgaði konu fyrir að taka hárið mitt. En ekki var hárið nú mikils virði, fyrst ég þurfti að borga konunni fyrir að taka það. En svona er þetta. Sumir borga fyrir hár, aðrir borga fyrir að fá það fjarlægt og hvorugur skilur hve heppinn hinn er.

Jólakvöð

Svo virðist sem ég sé að falla á tíma með allt það sem ég þarf að gera fyrir jólin. Ég neyðist víst til að slá mikilvægum hlutum á frest og vinda mér í þá milli jóla og nýárs. Það er óásættanlegt.

Ég var í kaffi hjá ömmu minni áðan, þ.e. þeirri góðu. Það var ágætt.

Nú skunda ég í Dressmann að skoða skyrtur. Aldrei að vita nema Ásgeir leynist þar milli fatarekka, íklæddur úniformi síns allranáðugasta herra og yfirboðara, Reynis S. Ólafssonar.