Húsbóndatýpan

Ætti ég að gerast týpan sem vaknar tveimur tímum áður en ég á að mæta til vinnu, rista mér brauð íklæddur kragamiklum slopp og drekk Earl Grey te með; reyki Sunday’s Fantasy píputóbak með Morgunblaðinu sem ég sit í húsbóndastólnum og þegar á mig er yrt hnykla ég brýnnar, tek lonníetturnar af nefinu og gef aðeins frá mér djúprómað jamm? Það hljómar svolítið spennandi.

Ró og næði

Ég skynja það æ betur með hverjum deginum hvað ró og næði eru mikilvæg lífsskilyrði. Ef ég fengi ráðið gæti ég slökkt á hljóðinu í fjölskyldunni. Þá fengi ég fyrst þá ró og næði sem ég tel mig þarfnast og eiga rétt á. Af þessum sökum sef ég æ minna á nóttunni. Það er eini tími sólarhringsins sem ég hef fyrir sjálfan mig og mín hugðarefni. Slæmt? Bíðið í nokkrar vikur, þá verður það slæmt.

Mikið öfunda ég manninn sem ég hitti fyrir þremur árum sem átti hljóðeinangrað svefnherbergi. Slíks er þörf þegar svona er ástatt. Því miður kostar það áreiðanlega svipað að hljóðeinangra herbergi og að kaupa litla íbúð á versta stað. Í þessu húsi er ekkert hljóðeinangrað. Reyndar er það þannig að ég get heyrt fólk tala saman í öðrum íbúðum. Þannig á það ekki að vera. Langverst er að þurfa að heyra í fólkinu í næsta stigagangi þegar það notar klósettið.