Af ýmsu og margvíslegu

Ég vona að slabbinu og klakanum verði tortímt í miklu monsúni næstu vikurnar. Jafnvel þótt Reykjavík liti út eins og Amsterdam eftir á.
Allir góðir menn gleðjast við þau tíðindi að kanaagentinn og Dóms- og kirkjumálaráðuneytiserfinginn, Stefán Einar, hefur drepið lýðvefssíðu sína úr dróma síns langa dvala. Vöntun var á þrugli svo heimurinn gengi upp.
Ég hef verið veikur undanfarið. Það er ekki gaman. Ég geri nógu mikið af engu eins og er.
Í gær bauð faðir minn mér í kvikmyndahús að sjá National Treasure. Mig langar til að geta mælt með myndinni án þess að hljóma eins og maður með slæman kvikmyndasmekk, en skortir getu. Henni má líkja við Da Vinci lykil Dan’s Brown og fjallar meðal annars um Musterisriddararegluna, Frímúrara o.fl. Í myndinni leikur eðaltöffarinn Sean Bean. Ég mæli engan veginn með því að fólk fari að sjá hana í kvikmyndahúsi.
Í tengslum við Musterisriddara og alt den slags er mitt helsta áhugamál þessa dagana að bæta við minn lexicon fornra trúarbragða. Á móti kemur að ég hef ekki getað gefið mér neinn tíma til þess. Eins og ég er nú annars fróður um norræna-, gríska- og rómverska goðafræði þyrfti ég að upprifja kynnin, auk þess að mig langþreyir að lesa mér meira til um goðafræði súmera og babylóníumanna, þá helst Gilgameskviðu. Í ofanálag vil ég kynna mér betur búddisma, hindú og islam. Enn ein þráhyggjan? Ójá, og nokk merkileg þráhyggja raunar, komandi frá guðleysingja.