Ferðalög og kókaínfíklar

Skyndilega er ég orðinn gagntekinn einhvers konar ferðamaníu. Ég hef því ákveðið, hvort sem bróður mínum líkar betur eða verr, að fara með honum til Þýskalands í tvær-þrjár vikur sumarið 2006 og ná jafnvel nokkrum leikjum á HM.

Annars vil ég taka það fram að ég þoli ekki hljómsveitina Red Hot Chili Peppers og mér finnst Anthony Kiedis vera ljótur og leiðinlegur uppskafningur. Svo er hann kókaínfíkill, skömmin.

Ferðalög

Á teikniborðinu fyrir þetta ár: Tékkland (hæpið þó), Spánn og Marokkó. Fyrir næsta ár: Rússland, með viðkomu í Svíþjóð og Finnlandi. Mér sem finnst ég aldrei ferðast neitt. Mér varð nefnilega ljóst í dag að rússneskunemendur næsta vetrar fá að sækja landið heim. Gangi allt eftir mun Evrópukortið mitt líta svona út. Sem stendur lítur það svona út. Og já, ég veit það er hneykslanlegt að ég hafi aldrei komið til Danmerkur. Nokkuð sem stendur til að bæta úr.

Formannsslagur

Ekkifrétt núsins, vissulega, en eitt nóteraði ég þó hjá mér við lestur á stefnumismun Össurar og Ingibjargar: Ingibjörg sér nefnilega ekkert því til fyrirstöðu að grunnskólakerfið verði einkavætt. Um leið og grunnskólakerfið er einkavætt og rukkað verður um skólagjöld erum við að viðurkenna að grunnnám sé ekki á færi allra, því ekki munu allir koma til með að geta borgað skólagjöld.

Þótt Ingibjörg hafi að öllu öðru leyti komið betur út úr samanburðinum get ég ekki annað en haldið með Össuri. Annars er þetta mál álíka óspennandi og Heimdallarkosningar eða háskólapólitík (sorrí, Auður, Elli og Freyr!).