Serbinn er tyrki.

Bróðir minn bloggaði á dögunum um rifrildi sitt við tyrkja um misleitan mexíkóskan fána á næringarstofunni Mama’s Tacos. Í gær fékk hann athugasemd frá Margréti Elísu nokkurri, starfsmanni næringarstofunnar, þar sem hún segir að beljakinn sé serbi, en ekki tyrki. Þá er rétt að benda á að það er hefð í íslensku máli fyrir að kalla allt meðaldökkt fólk tyrkja. Þar með fellur röksemdafærslan um að hann sé serbi um fætur málfræðinnar. Hann er tyrki, Q.e.d.
VIÐBÓT
Þá er kannski rétt að minna á urban legendið um að tyrkir hafi verið réttdræpir á Íslandi allt fram til ársins 1995 þegar þeir kepptu hér á HM í handbolta. Ef satt er mun þetta hafa verið tilkomið vegna tyrkjaránsins, sem alsíringar frömdu. Með sömu röksemdafærslu og miðað við málvenjur hafa alsíringar, grikkir, serbar, albanir, sýrlendingar, gyðingar og arabar verið lagalegir vágestir til 1995. Öll rök hníga að því, þ.e. ef sagan er sönn.

Skóladagur

Já, ég massaði menningarsöguna, eins og von var að, þrátt fyrir að ég hafi ekki beinlínis haft hugann við efnið, er ég renndi hratt yfir glósurnar á fjórða tímanum í nótt.
Ég er aðeins bjartsýnni á framboðið eftir að ég sá áróðursspjöld mótherjanna. Samt bara aðeins.
Margrét Haraldsdóttir, félagsfræðikennari, hefur skipt um skoðun og BANNAÐ okkur Brynjari að framkvæma megindlega rannsókn sem á sér fá ef einhver fordæmi í sögu félagsvísindanna. Rökin eru víst þau, að hún vill bara eigindlegar rannsóknir. Það finnst mér ekki góður kennari, sem vill mismuna stefnum innan þeirrar vísindagreinar sem hann kennir, og er þar að auki mótfallinn brautryðjendastarfi nemenda sinna, þegar starfið felst fyrst og fremst í að vekja áhuga á greininni. Þetta er eins og ef Brynja Vals krefðist þess af nemendum sínum að þeir væru stóumenn fremur en epíkúristar, sem væri algjör helvítis skandall! En það gerir hún ekki. Enda er Brynja Valsdóttir góður kennari.

Örendur

Ég er gjörsamlega búinn á því, á líkama sem á sál. Ég slæ varnagla á þetta. Þegar ég tala um sál á ég ekki við sál í trúarlegum skilningi. Nú skulu lesendur gera sér grein fyrir því og muna, því eftir mikinn lestur á Þórbergi mun ég áreiðanlega tala um sál í auknum mæli. En svo ég haldi áfram þá er ég gjörsamlega búinn. Hef varla orku til að skrifa þessa færslu. Þetta er ekki gott, af fleiri ástæðum en þeim augljósu. Það er nefnilega menningarsögupróf á morgun, þá heimspeki og trúarbrögð, og heiðurs míns vegna verð ég að fá tíu í prófinu. Eins freistandi og það nú er að leggjast út af og sofna. Já, ég er þróttlaus ræfill.

Hef fengið nóg

Ef ég ætti kærustu til að flytja inn á væri ég löngu fluttur. Ég er löngu orðinn þreyttur á ruglinu hérna heima. Sem dæmi um rugl þá er hér einn margra óþolandi vina litla bróður míns, þrátt fyrir reglu um enga krakka fyrir klukkan tólf. Þeir ætla að horfa á Spaugstofuna, húmorslausu gerpin! Rétt í þessu hringdi dyrasíminn. Fleiri krakkaskrýmsli á leiðinni!
Svo er mamma að ryksuga. Það að fólk geri yfirhöfuð eitthvað fyrir klukkan tólf á fríhelgum sínum finnst mér gjörsamlega út í hött. Enn verra er það þó á fríhelgunum mínum. Ég væri brjálaður yfir þessu ef ég væri ekki á leið til vinnu. En ég á víst í engin önnur hús að venda.

Hvers vegna?

Ég fékk hræðilegar fréttir í vinnunni í dag (einu fréttirnar sem ég fæ eru hræðilegar, svo það er kannski óþarfi að taka það fram). Annar tveggja yfirmanna minna hefur verið rekin og kærð fyrir afbrot í starfi. Utanaðkomandi finnst sjálfsagt að þar hafi komið vel á vondan, en það er aldrei svo einfalt þegar maður þekkir viðkomandi. Það er hræðilegt til þess að vita að frábær manneskja hafi eyðilagt svo mikið fyrir sjálfri sér og fjölskyldu sinni. Og auðvitað hefur eitthvað verið að – fólk gerir ekki svona upp á flippið.

En ég er eiginlega orðlaus yfir öllu saman. Ég bara næ ekki utan um þetta.

Listafjelagið

Mér skilst að mótframbjóðendur okkar ætli að bjóða upp á gos. GOS! Þetta er listafélag, ekki nammibar! Hvernig á maður að nenna að taka þátt í svona skrípaleik? Jæa, sem betur fer vega málefnin alltaf þyngra en sælgæti, not! Fokkíng sirkus.
Viðbrögð okkar við þessu síður en svo óvænta útspili eru í gerjun. Án efa munum við finna eitthvað merkilegt til að slá út kræsingar þeirra.
Jahá. Ef blogg um háskólapólitík er leiðinlegt, hvað er þá þetta?

The show must go on

grein eftir mig á Morgunpóstinum. Tek ekki við athugasemdum á þessum vettvangi, frekar en endranær.
Mæti í skólann í dag eftir þriggja daga fjarveru og mikla bloggleti. Nú er allt að fara á fullt í menntaskólapólitíkinni, svo það er eins gott að hrista hendur fram úr ermum þessa síðustu daga, þrátt fyrir að ég hafi enn ekki náð fullum bata. Fékk einmitt skondna hugmynd að auglýsingaskilti fyrir herferðina í gær sem felur í sér máltækið Ars longa, vita sceleris brevis. Híhí, líklegast munu fáir fatta þann húmor. Upplýsi raunar lesendur um að brandarinn tengist frægasta málverkaþjófnaði síðasta árs.
Hef verið að lesa Íslenzkan aðal í veikindum mínum. Lesturinn sækist vel, enda auðlesin, þrátt fyrir að vera mikið meistaraverk. Meðan á lestrinum hefur staðið hef ég drukkið óteljandi tebolla. Það fer vel saman, enda er te algjör snilld.
Þusi lokið.

Heilsugæslan

Áðan fór ég upp á heilsugæslu og hitti heimilislækni. Sá spurði hvað væri að og ég lýsti því sem best ég gat. Svo lamdi hann mig nokkrum sinnum í ennið. Þegar hann hafið lokið því af hlammaði hann sér við skrifborðið sitt og prentaði út lyfseðil, blikkaði mig og sagði að ein tafla af lyfinu kostaði jafn mikið og sama magn af Viagra. Það voru óþarfar upplýsingar.

Ef þið vitið um heimilislækni sem segir þér hvað er að en ekki öfugt þá látið mig vita. Ég vil vera viss um að ekkert fleira sé að mér þegar ég borga fyrir tímann.