Flugnadróttinn og jólasveinar

Lord of the Flies var hin fínasta lesning, þótt hún hafi farið misvel ofan í bekkinn. Oftar en einu sinni heyrði ég að hún væri ekki frumleg, sem er slæm ályktun, þar sem bókin var býsna frumleg þegar hún var skrifuð. Það er ekki mikið að marka slíkar deleríngar hjá kynslóð sem telur Matrix vera frumlega kvikmynd, þrátt fyrir að hún væri eftiröpun af franskri stuttmynd, hasarsenurnar teknar skammarlaust úr japönskum teiknimyndum og plottið tekið að láni frá Platon!
Ég var ánægður með bókina; hún flæddi vel og hélt mér í greipum sínum uns hún lá kláruð á borðinu og ég sat með forundrunarsvip á sófanum. Já, hún var góð þar til einn mesti antiklímax bókmenntasögunnar fékk mig til að líða eins og ég hefði gengið á vegg. Vissulega var breytingin í endann merkileg, en frekar fyrirsjáanleg. Ég hefði altént endað bókina á annan veg.

Ég sé að Sverrir minnist á hlæjandi búddann. Það er ekki langt síðan því var haldið fram við mig að hann væri fyrirmynd jólasveinsins, en ég hef aldrei þorað að leggja mat á það (né fundið haldbærar sannanir fyrir því). Annars eru svíarnir langmest töff með sinn heilaga Nikulás (þaðan kemur jú nafnið). Allir hafa sín skurðgoð. Merkilegt hvað menn geta þóst vera kristnir fyrir það.

Þessi færsla er ekki lestursins virði

Ég játa það hér með að ég hef drýgt þann höfuðglæp að glugga í gamlar bloggfærslur hjá Stefáni Pálssyni. Þar rakst ég á nokkuð sem glæddi kulnaðan eld míns stopula og steingelda skopskyns(1), en það er gömul stjörnuspá þess útdauða blaðs Tímans. Hún hljómar svo:

Þú ákveður að vera flottur í dag og láta það eftir krökkunum að kaupa kött.
Mikil verða vonbrigði þeirra þegar þú kemur heim með „hair-cut“.

Já, ég veit þetta er ekkert fyndið. Ég hló samt eins og Ödipus að þessu.

_____________________
(1): Þeir sem vilja fræðast meira um yfirnáttúrulega lélegt skopskyn mitt og fjölbreytilegt eðli þess geta sent mér tölvupóst.

Kukl og kjaftæði

Ég leyfi mér að vitna beint í bloggfærslu Vésteins Valgarðssonar:

Hópur Belga reynir hópsjálfsmorð með blásýru. Mistekst. Hvers vegna? Aðferðin sem þeir notuðu – sama aðferð og hómópatar nota til að útbúa „lyf“ – virkar ekki.

Ég hló mig máttlausan yfir þessu, enda mikil snilld. Hvað þarf til að almenningur geri sér grein fyrir því að allt þetta kukl sem það eyðir peningum í er ekkert nema kukl og kettir í sekkjum?
Annars vil ég nota tækifærið til að benda lesendum sem notast við Hollywoodkúrinn á að ég býð upp á ódýrari lausn sem virkar alveg jafn vel: Klípa af Engifer og vatnsglas á dag. Það ætti að hafa svipuð áhrif.

Lélegt málfar á Fréttablaðsinu er engin nýlunda

Á forsíðu Fréttablaðsins er frétt með yfirskriftina „Gleymdi tönnunum“. Hér birtist hún í heild sinni:

Innbrotsþjófur í Svíþjóð varð fyrir því óláni að gleyma fölskum tönnum á vettvangi. Til að bæta gráu ofan á svart var kennitala þjófsins grafin í góminn. Lögreglu fann því manninn fljótt.
Hinn ólánsami innbrotsþjófur braust inn í mötuneyti í Karlshamn en fann engin verðmæti í kaffiteríunni og þegar hann flúði vettvanginn týndi hann tönnunum.

Í fyrsta lagi: Til hvers að birta svona gúrkutíðindi? Þetta er ekki fréttnæmt og svo sannarlega ekki fyndið.
Í öðru lagi er það málfarið. Ég fyrirgef (kannski) innsláttarvilluna í lok fyrstu efnisgreinar, en sú síðari er gjörsamlega hræðileg. Þetta hlýtur að hafa verið ógnvekjandi vettvangur, fyrst þjófurinn (sem þó stal engu og getur þ.a.l. ekki verið titlaður þjófur) taldi sér heillavænlegast að flýja hann. Hið rétta er vissulega að afbrotamaðurinn (þar sem það er vissulega afbrot að brjótast inn) flúði af vettvangi.

Er þetta smámunasemi? Ef til vill. En hitt ber þó að athuga, að fyrst 53 orða grein er svona illa skrifuð, hvernig ætli afgangurinn af blaðinu sé? Það á ekki að vera til fyrirmyndar þegar einstaka blaðamenn skrifa vel. Það á að heita sjálfsagt. Og því verður seint logið upp á skríbenta Fréttablaðsins, að þeir fari ekki með málið eins og Ödipus með mömmu sína, beint upp í óæðri.