Örendur

Ég er gjörsamlega búinn á því, á líkama sem á sál. Ég slæ varnagla á þetta. Þegar ég tala um sál á ég ekki við sál í trúarlegum skilningi. Nú skulu lesendur gera sér grein fyrir því og muna, því eftir mikinn lestur á Þórbergi mun ég áreiðanlega tala um sál í auknum mæli. En svo ég haldi áfram þá er ég gjörsamlega búinn. Hef varla orku til að skrifa þessa færslu. Þetta er ekki gott, af fleiri ástæðum en þeim augljósu. Það er nefnilega menningarsögupróf á morgun, þá heimspeki og trúarbrögð, og heiðurs míns vegna verð ég að fá tíu í prófinu. Eins freistandi og það nú er að leggjast út af og sofna. Já, ég er þróttlaus ræfill.

Hef fengið nóg

Ef ég ætti kærustu til að flytja inn á væri ég löngu fluttur. Ég er löngu orðinn þreyttur á ruglinu hérna heima. Sem dæmi um rugl þá er hér einn margra óþolandi vina litla bróður míns, þrátt fyrir reglu um enga krakka fyrir klukkan tólf. Þeir ætla að horfa á Spaugstofuna, húmorslausu gerpin! Rétt í þessu hringdi dyrasíminn. Fleiri krakkaskrýmsli á leiðinni!
Svo er mamma að ryksuga. Það að fólk geri yfirhöfuð eitthvað fyrir klukkan tólf á fríhelgum sínum finnst mér gjörsamlega út í hött. Enn verra er það þó á fríhelgunum mínum. Ég væri brjálaður yfir þessu ef ég væri ekki á leið til vinnu. En ég á víst í engin önnur hús að venda.