Í kjölfarið

Í kjölfar síðustu færslu er kannski rétt að benda á að hið óformlega nýstofnaða Málfundarfjelag vinstrisinnaðra ungskálda heldur úti málgagninu FORVM POETICVM, sem allir áhugasamir eru hérmeð hvattir til að kynna sér. Hugmyndina að vefsíðunni fékk ég frá hinni ágætu síðu Ars longa vita brevis, en allir þeir andans póesíumenn eru fyrrverandi bekkjarfélagar mínir úr Menntaskólanum í Reykjavík. Hugmyndin um málfundarfélagið hefur hins vegar ágerst í höfði mér síðastliðið eitt og hálfa árið.
Þá tilkynnist það að þeir meðlimir sem eiga eftir að skila inn mynd af sér fyrir málgagn vort eru vinsamlegast beðnir að drolla ekki mikið lengur, en það eru þeir Emil Hjörvar Petersen og Halldór Marteinsson, skömmirnar á þeim.

Úrslit kosninga

Við fengum tæp 30% atkvæða. Ekki kemur það á óvart. Það mun þó engu breyta um að við munum efna kosningaloforðin. Rödd okkar hefur heyrst. Hjördís Alda, verðandi Ármaður, hefur lýst yfir áhuga sínum á að vinna með okkur og sömuleiðis verðandi Listafélag, en kosningabaráttan einkenndist öll af mikilli vinsemd og gagnkvæmri virðingu, eins og vera ber. Ekki verður það sama sagt um öll framboðin.
Jæa, þetta verður þá síðasta kosningafærslan. Ég er fegnari því en lesendur mínir, þótt ótrúlegt megi virðast.