Cartland og verkefnastafli

Mæli með því að allir lesi örlagaþrungna sögu Konráðs Jónssonar, jafnt lærðir sem leikir. Hún er æðisleg og veitir ljósi inn í myrkvað hræ grámyglaðrar rútínu hversdagsamstursins. Eða eitthvað.
Annars er margt á einn mann lagt fyrir þetta kvöld. Ég skulda kommunum grein, Brynjari fyrri hluta söguverkefnis og Guðmundi Karlssyni smá viðleitni til að læra fyrir þýskuprófið á morgun.

Staðreyndavillur og kjaftæði

Hver ætli helmingunartími staðreyndavilla sögubókanna sé (það er jú ekkert sagnfræðingaþing í Níkeu til að ritskoða allar sögubækur á einu bretti). Menn klifa enn um að Gutenberg hafi fundið upp prentverkið og að Pascal hafi fundið upp reiknivélina. Það er eins og að segja að Sókrates sé upphafsmaður heimspekinnar, en þótt hann hafi markað tímamót verður því seint haldið fram, að hann hafi verið fyrstur. Þetta hef ég áður talað um hér.
Kannski nennir enginn að breyta þessu. Menn halda því ennþá fram að mannsheilinn sé öðrum heilum sérstæðari hvað notkun varðar, þ.e. að við notum eingöngu 10%, sem er argasta þvæla. Sömu menn halda því jafnan fram að einn hluti heilans hafi eitt sinn verið notaður til fjarskynjunar og hugsanaflutnings. Þessir sömu menn mættu hafa sig hæga og spyrja lækna, líf- og (alvöru) sálfræðinga álits. Af fleiri kreddum sem tröllríða ljósvakanum og ala á fávísi má t.a.m. nefna sjálfsmorð læmingja, áfallahjálp, smáskammtalækningar, miðlar, viska Gunnars Dal og „mjólk spornar gegn beinþynningu“. Allt er þetta kjaftæði sem finna má rétt svör við ef rétt fólk er að spurt.

Manns eigið forlag

Menn sem hyggjast standa í sinni eigin bókaútgáfu hljóta að velta því fyrir sér hvað sé leiðinlegasti hluti ferlisins. Svarið er einfalt: Að hefta helvítin saman. Það tekur um hálfa til heila mínútu að brjóta blöðin og hefta hvert eintak og það getur orðið leiðigjarnt þegar um nokkurn fjölda er að ræða.
Miðað við tímann sem tekur að fylla á lagerinn er líka svekkjandi að sjá hve fljótur hann er að tæmast. Ekki að það sé leiðinlegt að bókartetrið seljist. En tóm hirsla þýðir að maður þarf að fara að prenta, brjóta og hefta. Sem er leiðinlegt.
Verst af öllu eru samt villurnar sem læðast inn. Já, vel á minnst, mig vantar tipp-ex fyrir alla 2. prentun!

Af námi

Jæa, þá hef ég skilað hinni svonefndu leiðarbók fyrir félagsfræðirannsókn okkar Brynjars. Hún gildir 20%. Ef Margréti Haraldsdóttur er ekki fisjað saman fæ ég 5 fyrir hana. Sem nægir mér til að ná félagsfræðinni. Svartsýnn á að ná? Nje. Það má samt gera ráð fyrir öðru. Rannsóknin er náttúrlega ekki tilbúin og hún gildir 40%. Þá er eins gott að hún verði flott!
Fékk í dag einkunn úr menningarsöguprófi. Það var 9,6. Ekki slæmt. Það gerir meðaleinkunn síðustu fjögurra söguverkefna/-prófa að 9,9. Sem er heldur ekki slæmt. Ekki skil ég hvað menn nenna að kvarta yfir námsefninu. Menningarsagan er langtum skemmtilegri en uppgangur í bændasamfélagi Evrópu á miðöldum. Eða hvað svo sem maður lærir í týpískri mannkynssögu.