Spilafíkn og Stefán frá Hvítadal (ekki tengt)

Skítseyði með sál, hugsaði ég þegar talsmaður bresk/íslensku fjárhættuspilaheimasíðunnar benti á siðleysi SÁÁ, að láta ágóða spilakassa sinna renna til meðferðar á fjárhættuspilurum. Alveg rétt hjá honum. Nær væri fyrir SÁÁ að hætta að skapa fleiri vandamál en þeir leysa og fjarlægja alla spilakassa – helst tortíma þeim. Kastið er hins vegar augljóslega úr glerhúsi komið.

Í dag fékk ég að láni Ljóðmæli eftir Stefán frá Hvítadal. Varla má á sjá, hvor naut meiri áhrifa frá hinum, Stefán eða Þórbergur Þórðarson (líkast til sá síðarnefndi), en höfundareinkenni eru sumpart keimlík, t.d. orðið röðull í stað sólar o.s.v. Stefán er samt fagurmælgari og rómantískari. Hins vegar einkennast kvæði hans af ástarleysi, sjálfsvorkunn af fyrrnefndri ástæðu, aumingjaskap og svartsýni. Það, eins og svo margt annað, er aðeins fínt í hófi. Þótt Stefán sé ágætur má vel vera að Þórbergur hafi mært hann um of í Íslenzkum aðli. Að ég minnist nú ekki á Stefánsstikka, sem var nú raunar hæðið, ekki síst vegna helgislepjunnar sem umvefur Stefán í honum.

Af gigt og lýrík

Það er nú meira leiðindaveðrið úti. Utinam að það skáni fyrir helgi.
Annars finn ég nú í fyrsta sinn fyrir hrörnun míns aldrandi unglingslíkama, en þegar á unga aldri þjáist ég af liðagigt og hugsanlega kviðsliti. Af þessum völdum hef ég dregist um, haltrandi í allan dag. Brátt mun ég ganga stoltur við staf, svo ég geti borið aldurinn með þeirri reisn, sem honum er tilskyld. Svo fylgir aldrinum mikill þroski. Ekki ber að neita því. Mun ég því með komandi tíð og tíma æ oftar tala um hægðir, ornandi mér við arineld, drekkandi koníak við kertaljós, gluggandi mér til dundurs í Bændablaðinu og Hagnýtum hannyrðum.

Hjördís ármaður hefur beðið MVU um að halda póesíukvöld uppi í skóla, þar sem vér munum lesa upp úr vorri guðs náðar lýrík. Hvað segja ungliðar um það?