Að erfiðum degi loknum

Að erfiðum degi loknum er gott að halla sér aftur og gleyma geðveikinni.

Ljóð dagsins er Skilaboð til vegfarenda eftir Andra Snæ Magnason:

Ég veit ekki af hverju ég stöðvaði bílinn og tók upp köttinn sem lá í blóðrauðum polli á malbikinu því ég keyrði ekki á hann en þar sem ég stóð með köttinn í fanginu á miðri götunni og hugsaði hvað ég ætti að gera við hann því blóðið myndi klínast í áklæðið þá fann ég hvað hann var enn undarlega mjúkur og volgur en þegar ég sá hörkuna í augum fólksins sem ók framhjá vissi ég hver var sekur og skildi að sá einn er saklaus sem heldur fullri ferð áfram.

Draumfarir

Í nótt dreymdi ég að ég væri í Sundhöll Reykjavíkur, en hún leit allt öðruvísi út og var mun framtíðarlegri. Þar hitti ég Immu hagfræðikennara og plataði hún mig til að taka þátt í erfiðri köfunarkeppni, en um leið og við komum upp úr kafi, áttum við að skilgreina muninn á þjóðarframleiðslu og landsframleiðslu. Ég vann keppnina með mjóum mun.
Stundum vildi ég að mig dreymdi ögn eðlilegri drauma.