Orðatiltæki og Fréttablaðið

Það hvarflar skyndilega að mér að íslensk orðatiltæki ættu að vera háð séríslenskum aðstæðum. Það er t.d. ekki mikið afrek að vinna myrkranna á milli á veturna, þegar ekkert sést til sólar. Þá ætti frekar að tala um að vinna dægranna á milli.

Fyrst aprílgabb Fréttablaðsins í gær var inni í blaðinu (Bobby Fischer býður íslendingum í fjöltefli) var það víst ekki gabb að hann eigi að greiða fjármagnstekjuskatt af bankainnistæðum sínum í Sviss til íslenska ríkisins. Nema Fréttablaðið sé öðrum blöðum betra og gantist tvisvar.

Talandi um Fréttablaðið, þá eiga þau tilvitnun dagsins:

SUNDURHLUTAÐ LÍK Í STOKKHÓLMI
Vegfarendur fundu líkamsparta í ruslapoka sem komið hafði verið fyrir undir brú í Stokkhólmi. Að sögn Aftonbladet vantaði nokkra líkamshluta í pokann til að hægt væri að bera kennsl á líkið. Sænska lögreglan rannsakar málið sem morð.

Af kombói andans: Pípureykingum og tedrykkju

Þegar ég vaknaði klukkan sex í morgun (nú er rétti tíminn fyrir lesendur að taka andköf) fékk ég mér pípu. Hálftíma seinna þráði ég sígarettu, undarlegt nokk, reykti eina og fékk nikótínsjokk dauðans. Ég geri mér nú grein fyrir því að ef ég vil taka upp pípureykingar alfarið í stað sígarettunnar neyðist ég fyrst til að ganga í gegnum það erfiða ferli að hætta að reykja. Vellíðanin eftir á er nefnilega svo frábrugðin, að þó ég reyki pípu svala ég ekki löngun minni í sígarettur.

Annað, sem skilgreina mætti sem vandamál, er að mig langar í te en mig langar ekkert sérstaklega til að drekka það. Kannski þrái ég bara konseptið „te“.