Hversdagslegar vangaveltur

Það er mikill misskilningur að ég hafi eitthvað merkilegt fram að færa á þessari bloggsíðu, eða fólk almennt á sínum bloggsíðum. Á ég að leitast þess við að orða hlutina öðruvísi, svo lesendur rjúki ekki upp sér til handa og fóta, svo yfir mig dembist holskefla svívirðinga einfaldlega vegna þess að textinn býður upp á oftúlkanir? Eða á ég að halda mínu striki, því ég veit að bloggið er ómerkilegasti miðill samtímans og að fólk á ekki að taka þau alvarlega, þó fólk geri sér ef til vill ekki grein fyrir því?

Nei, ég held fólk verði bara að læra að éta ekki óstinnt upp eftir mér það sem hér birtist. Ég blogga án ábyrgðar. Ég á ekki að þurfa að standa neinum reikningsskil fyrir hversdagsleg köpuryrði mín, síst af öllu þegar ég blogga fyrir sjálfan mig.

Það er ekki hægt að greina það á veðrinu, að vorið nálgast óðfluga. Ég þrái vorlyktina af nýútsprungnum blómum, eins og finna má á sumrin í Lystigarðinum á Akureyri, og tuttugu stiga hita. Hvers vegna snúast sumrin alltaf upp í fyllerí, þegar kjörið er að njóta einfaldlega útiverunnar og anda vorsins?
Íslendingar verða svo yndislega barnalegir þegar helstu vandamál heimsins virðast fólgin í geitungaváinni. Á vorin er æðislegt að vera til. Þá iðar allt af lífi. Hverjum er ekki raunverulega sama um nokkra geitungaræfla þegar sólin skín og blómin springa út og trén laufgast og himingráminn blámast?

En þetta eru kannski ótímabærar vangaveltur; það er jú ennþá vetur.