Furðuleg villa í Furðulegu háttalagi

Ég hef rekist á nokkra galla í Furðulegu háttalagi hunds um nótt, hver um sig afsakanlegur, en einn er áberandi verstur. Svo virðist vera að sögumaður bókarinnar átti sig ekki almennilega á því hvað hann er gamall, sem væri gjörsamlega fáránlegt, svo sökin liggur annaðhvort hjá þýðanda eða rithöfundi, sem er þó eiginlega ennþá fáránlegra. Varla getur lesandinn ályktað að rithöfundur hafi gleymt aldri aðalpersónunnar í miðjum klíðum, en hvernig getur hann ályktað öðruvísi þegar sönnunin liggur fyrir framan nefið á honum:

Setning 1: Fyrir átta árum, þegar ég hitti Siobhan í fyrsta skipti, sýndi hún mér þessa mynd.

Setning 2: Ég er fimmtán ára og þriggja mánaða og tveggja daga.

Setning 3: Hún [Siobhan] byrjaði ekki að vinna í skólanum fyrr en ég varð tólf ára.

Einfalt reikningsdæmi: 7 = 15 – 8 ≠ 12.

Fimm mögulegar lausnir:

1. Hann hlýtur að hafa verið sjö ára þegar hún byrjaði að vinna í skólanum, því lesandinn gerir ekki ráð fyrir því að hann hafi þekkt hana áður. Sögumaður gefur svo ítarlegar upplýsingar að hann hefði áreiðanlega minnst á það hafi hann þekkt hana áður en hún byrjaði að vinna í skólanum.

2. Hann laug því að hann er fimmtán ára. Í raun er hann tvítugur. Þetta er óhugsandi því hann getur ekki logið, eðli sínu samkvæmt.

3. Höfundurinn klúðraði. Það er dauðasynd.

4. Þýðandinn klúðraði. Einnig dauðasynd.

5. Í raun er þetta stærðfræðidæmi sem aðeins hinir snjöllustu rökfræðingar gætu leyst.

Hrísateigur 6

Ofarlega á Hrísateignum, við horn hans og Hraunteigs, stóð hús í stórum trjágirtum garði. Grindverkið kringum lóðina var gamalt og fúið og það var húsið raunar augljóslega líka, þótt lítið sæist í það gegnum trjáþykknið. Það sem af garðinum sást var í niðurníðslu.

Fyrir fjórum árum, meðan ég var blaðburðardrengur, þurfti ég að fara með blaðið í þetta hús. Þá hafði ég tekið að mér aukagötu yfir helgi til að drýgja tekjurnar, en þær voru heldur rýrar, þrátt fyrir aukavinnuna sem var mikil og fylgdi nokkurt álag. Þetta var í desember 2000, í hámarki skammdegisins, og svo fannst mér á húsinu, að í því væri álíka mikið líf og í rotnum garðinum. Samt virtist búa fólk þar. Fólk sem vildi fá Moggann á morgnana.

Fleira veit ég ekki um þetta hús annað en það að nú er búið að rífa það. Þessu tók ég eftir áðan. Hús sem stóð þarna fyrir minnst tveim vikum er nú horfið og garðurinn í enn meiri rúst en áður.

Þótt húsið hafi verið nokkurt lýti á annars fallegri götu finnst mér synd að missi þess. Þetta var þess konar hús, að ýmsar sögur hafa sjálfsagt spunnist um það og íbúa þess (að ég tali ekki um alla mögulega fyrrum íbúa þess) og farið sem eldur í sinu milli krakkanna í hverfinu. Þetta var síðasta draugahúsið í hverfinu, líkt og Laugarnesvegur 66 var í gamla daga, og nú er það farið. Nútíminn eyðir öllum draugasögum.