Ungir frjálshyggjumenn

Hrottafengin voðaverk kommúnista á öldinni sem leið hafa algerlega farið fram hjá þorra manna“.

Ég furða mig á þessari athugasemd. Ég veit ekki betur en allir viti af þeim hörmungum sem ógnarstjórn sovétkommans leiddi yfir Evrópu. Þetta er kennt í öllum grunnskólum og menntaskólum landsins, auk þess sem áhrif kommúnismans hafa verið fastur þáttur í allri umræðu í þónokkurn tíma, alveg frá falli járntjaldsins.

Það sem mér þykir merkilegra er að sú staðreynd, að Rússland hafði meira eða minna sætt sams konar ógnarstjórnum allt frá andláti Jaroslavs hins horska árið 1054, hafi algjörlega farið fram hjá þorra manna. Í raun væri það frétt aldarinnar ef rússar fengju lýðræðislega og réttláta ríkisstjórn. Það yrði þá í fyrsta skipti í nærri þúsund ár.

Tilvistarkreppa vinnualkans

Ég er ekki mikið fyrir að hæla sjálfum mér, raunar finnst mér það meira að segja óþægilegt þegar aðrir hæla mér, en sögueinkunnin mín fyrir þetta skólaár liggur nú fyrir. Og ég er orðlaus. Það er gjörsamlega óverðskulduð tveggja stafa tala. Mér finnst eins og ég hafi svindlað á einhverjum.

Það er ekki kennt í dag, en við Brynjar lögðum lokahöndina á ritgerð okkar um Salvador Dalí uppi í skóla áðan. Nú stend ég hér heima og geng álkulega um gólf. Ég er ekki vanur svona frídögum lengur. Ég verð að gera eitthvað. Annars missi ég vitið. Þetta er undarleg tilfinning, að hafa rétt í þessu klárað ritgerð og finnast ég verða að vinna fleiri verkefni. Er þetta til marks um hröðun hins frjálst fallandi ofan í ógnardjúp geðveikinnar? Eða er ég bara farinn fram úr sjálfum mér?

Hungrið læðist aftan að mér. Ætli ég neyðist ekki til að þjappa einhverjum matvælum ofan í vélindað á mér.