Nýr stalker eða gamall vinur?

Í sumu er minni mitt gloppóttara en ósonlagið. Til að mynda er kona sem alltaf heilsar mér með nafni þegar hún sér mig, sem er raunar alltaf þegar ég er í vinnunni. Hún hefur tendens til að dúkka upp þegar síst skyldi, eins og síðast þegar hún hnippti í öxl mína og sagði „Hæ Arngrímur!“ eða þarsíðast þegar hún stökk fram undan súlu og hrópaði „HÆÆÆÆJJJJ!!!“

Ég hef ekki hugmynd um hver þessi kona er. Ég er ekki einu sinni viss um að ég vilji vita það, en svo virðist sem hún þekki mig einhversstaðar frá. Kannski er hún bara klikkuð, hver veit. Það er samt ekki mjög huggandi tilhugsun.

Snorra-Edda

Ætli við bróðir minn séum þeir einu sem höfum húmor fyrir því að Heimdallur sjái jafnt nótt sem dag hundrað rasta?

Mitt ófélagslynda sjálf
Áðan barðist ég við að hringja í fólk upp á að setjast við Austurvöll og dreypa á bjór í sólinni. Ég hugsaði með sjálfum mér að ég gæti notið mín jafnvel einn. Svo ég grillaði tvo hamborgara, opnaði bjór og settist út á svalir með góssið. Það var ömurlegt. Stundum er félagsskapur nauðsyn. En hvers á ég að gjalda fyrir að allir séu í prófum nema ég?