Tvenns konar mælskulist

Það er blóðugt að horfa upp á Steingrím J. hakka í sig aðstoðarmann forsætisráðherra aðeins degi eftir að Ólafur Teitur brytjaði Sigurjón M. Egils í spað í Íslandinu. Munurinn er að hjá Steingrími J. var málflutningurinn pjúra röksemdarfærsla, byggð á staðreyndum. Hjá Ólafi Teiti var það öðru fremur yfirvegun og tækni, meðan fréttastjórinn barmaði sér eins og gylta að berjast í hakkavélinni. Menn sem geta rökrætt þannig þurfa ekki sannleikann. Hann kemur málinu ekkert við.

Ljóð dagsins

Af því enginn gat svarað því hver orti ljóð gærdagsins birti ég annað ljóð eftir sama skáld. Takið eftir því hvað hann hittir naglann á höfuðið:
Dagblöðin
Úr blöðunum hjómast ei hugsun til neins,
mig hryllir við þvílíku sargi,
því málið og stíllinn og efnið er eins:
svo andlega meinþýfður kargi.
Nú ætti hringurinn að fara að þrengjast um skáldið. Ef enginn getur þetta birti ég þriðja og síðasta ljóðið á morgun. Það ættu allir að þekkja.

Lífsgátan

Þorgrímur Þráinsson bullar í Blaðinu (sem er nota bene ömurlegt blað) í dag. Þar segir hann að grísku goðin hafi falið leyndardóm lífsins í hjartanu, eftir að hafa skeggrætt um að fela hann uppi á hæsta fjallinu eða í dýpsta djúpálnum. Þetta hef ég aldrei heyrt áður. Þó er ég þónokkuð kunnugur hvers konar goðafræði, eftir að hafa stúderað þau jafnt í framhaldsskóla öll mín ár þar (fimm) sem og utan hans. Gæti verið að hann eigi við einhverja grein búddisma, þar sem allur pistill hans virðist taka mið af honum? Ekki er sagan grísk, svo mikið er víst.

Dr. Gunni er fyndinn

Fyrir tilviljun rakst ég á gamla bloggfærslu hjá dr. Gunna. Þessi mynd fylgir færslunni:

„Húrra!
Stefán Einar, 19 ára, er framtíðarhetja „frjálslyndra“ Sjálfsstæðismanna. Hann er með ilmandi hressa heimasíðu og aðdáendamynd af Bjössa Bjarna og allt. Á mínu kommúníska æskuheimili voru svona gaurar kallaðir „smjörkúkar“ og mikið gaman hent að slíkum. Í þá daga fylgdu hornspangargleraugu lúkkinu. Það er frábært að þessi dýrategund er ekki útdauð, því ég hélt að eina eftirlifandi skepnan af tegundunni væri Birgir Ármannsson (held ég að hann heitir), annar slaufu-smjörkúkur sem er í einhverjum banka eða eitthvað. Lögfræðingur kannski. Kannski geta hann og Stefán fjölgað sér svo Smjörkúkarnir deyi ekki út?“
-2002.

Þetta er hvorttveggja fyndið og satt. Hvers vegna skyldi Mörður ekki hafa fært hugtakið „smjörkúkur“ inn í eddu sína? Kannski ég hringi og spyrji hann.

Ljóð dagsins

Uppörvun
Lát óskelfdur heimsku hof
háðs í eldi brenna –
miskunn veldu og manndáð lof,
meðan veldur penna.
Lát óm þinna hljómfalla opna þér dyr
í íslenzku kotin,
og hritt því, að málið, sem hugdirfði fyrr,
sé herlúður brotinn.
Ég skil það, að hann geri heiminum gagn,
sem huggar, en letur –
en skáldsins í valdi er voldugra magn,
sem vekur og etur.
Ætli einhverjir lesenda þessarar örmu bloggsíðu kenni skáldið?

Stjórnarskrá ESB

Nú kjósa frakkar um stjórnarskrá ‘Sambandsins (takið eftir hvað þessi ritháttur samræmist betur virðingu hinna yngri og vandlátari kjósenda). Það sem helst vekur athygli við fréttina, fyrir utan það að Chirac kemur fram við kjósendur eins og börn, að því er virðist, er það sem stendur undir myndinni: „Þrjár kjörvélar sem prófaðar verða í atkvæðagreiðslunni í dag. Atkvæði sem greidd verða í vélunum verða þó ekki talin“.

Þá er gjörsamlega fáránlegt að nota þær. Ætli yfirlýstum andstæðingum ESB verði ekki vísað á vélarnar meðan hinir krota á seðla.

Lesendabréf

Ég var að lesa dagbók þína á Netinu. Ég kannast ekki við að hafa verið ókurteis við neinn í IKEA. Ég er auðvitað stundum að flýta mér, eins og allir eru, en ég hef engan áhuga á því að vera dónalegur við einn eða neinn. Ef ég hef verið það, þá hefur það verið óviljandi.
HHG

Nei, það er rétt hjá þér. Þú varst ekkert ókurteisari en meðalmaðurinn og átti ég þá við að Sigurður Kári hefði verið sérstaklega kurteis.
En ég biðst velvirðingar á óvæginni athugasemd sem ekki átti rétt á sér og sé til þess að hún verður leiðrétt. Bestu þakkir fyrir athugasemdina.

með kærri kveðju,
Arngrímur Vídalín

Umrædd athugasemd finnst ekki lengur á þessari síðu þótt hún sjáist kannski ennþá í leitarvélum.

Notkun eyrnapinna undir stýri

Nú hef ég séð allt.

Ég sofnaði strax eftir að hafa bloggað í gær og var ég þá nýkominn úr vinnunni. Svo dreymdi mig að ég væri í vinnunni. Svo vaknaði ég klukkan sjö. Þá voru fimm tímar í að ég átti að mæta í vinnuna. Það minnir mig á setningu úr myndinni Waking Life:

„Did you ever have a job that you hated and worked real hard at? A long, hard day of work. Finally you get to go home, get in bed, close your eyes and immediately you wake up and realize… that the whole day at work had been a dream. It’s bad enough that you sell your waking life for minimum wage, but now they get your dreams for free“.

Öðruvísi mér áður brá

Af sinni óviðjafnanlegu andans kímni hefur Þórður Gunnarsson tekið sér mynd af þessari síðu til notkunar, með ólögmætum hætti, og birt á athugasemdakerfi MySpace síðu Stefáns Vilbergs Einarssonar, tónlistarmanns, vafalítið mér til háðs, þótt sjálf athugasemdin sé algjörlega úr samhengi við myndina. Þetta vekur upp hjá mér kátínu af vissum ástæðum sem hér verða raktar.

Myndina tók ég á aðfangadagskvöldi jóla 2005. Þess vegna er ég í jakka á henni, því þvert á það sem lesendur þessarar síðu gætu trúað geng ég raunverulega ekki í jakka heima hjá mér, nema tilefni sé til. Í bakgrunni sjást pappírssneplar og handrit að ljóðabók, sem í þann tíð lágu á skrifborðinu mínu, auk bókaskáps sem fékk ég keyptan í IKEA. Allar hvítu bækurnar hægra megin höfuðs frá áhorfanda séð, auk rauðu bókarinnar við enda þeirra, er Þórbergssafnið mitt. En það kemur málinu ekkert við.

Myndina tók ég, sitjandi við skrifborðið, að aflokinni jólasteikinni og eftirjólasteikurpípunni, sem ólíkt steikinni er ekki árlegur viðburður, heldur vildi einmitt svo til að ég átti píputóbak það herrans kvöld. En það kemur málinu heldur ekkert við. Hinsvegar, sem vænta mátti, fílaði ég mig eilítið snobbaðan umrætt kvöld, hafandi nýverið lokið við steik hverri ég skolaði niður með rauðvíni, svo og reykt pípu í kjölfarið og drukkið kaffi með henni. Maður leyfir sér slíkt. Þaraðauki, fyrst hárgreiðslan var sæmilega í lagi, ákvað ég að smella af einni mynd til að fanga augnablikið. Gott ef það lá ekki vel á mér, meira að segja. Svo þannig æxlaðist það, að af útreiknaðri og hárfínni fagurfræðilegri nákvæmni, beindi ég myndavél að eigin höfði, vandaði svo til að bókaskápurinn sæist ALVEG ÖRUGGLEGA og smellti af. Útkoman er líka þessi hárfíni bláþráður milli fræðimanns og menntasnobbs.

Nema hvað, að svo gleymdist myndin, í flóði allra þeirra goðumlíku mynda sem ég jafnan tek af sjálfum mér í fullu tungsljósi, nakinn ýmist í sænum eða snænum, og rak ekki á fjörur mínar fyrr en um daginn, þegar ég af minni gríðarlegu tæknilegu forfrömun hlóð innihaldi myndavélarinnar inn á tölvu móður minnar (því sama hversu fínn maður er, þá er maður altént ekki það fínn að eiga sína eigin tölvu, skömm sé að því). Dúkkar þá ekki upp þessi líka fína mynd. Og ég verð að játa, að áreiðanlega varð mér eins um og þegar Þórður leit hana sjálfur fyrst augum. Þessi mynd var einfaldlega of mikil snilld til að nota hana ekki.

Og þannig fór um það. Ég smækkaði hana í staðalstærð Bloggsins um veginn og hlóð inn á netþjóninn (af minni gríðarlegu tæknilegu forfrömun, sem áður hefur og komið fram). Þá ekki síst, og takið eftir, því hér kemur uppljóstrunin, vegna þess einmitt að af mínu barnslega lundarfari gerði ég ráð fyrir því, að Þórður myndi af sinni alkunnu vinsemd hnýta í mig fyrir að birta hér svo tilgerðarlega mynd af sjálfum mér. Nema hann gerði það bara alls ekki. Öðru nær birti hann myndina einhversstaðar, þar sem líkur væru til að ég sæi það ekki, án þess að hnýta í mig. Þykir mér miður.

En nú get ég ekki annað sagt eftir myndbirtingu þessa en ég sé kampakátur, enda svosum erfitt að vera það ekki á slíkum sólskinsdegi. Ég er að hugsa um að setjast út á svalir, troða mér í pípu, fá mér eins og eitt glas af rauðvíni með því og virkilega njóta þess, svona í eitt skipti fyrir öll, að vera álitinn snobbaður. Já, það er gott að vera til.

Die Selbstehenpartei

Það má alltaf treysta á hæversku sjálfstæðismanna. Í Kastljósinu er borgarkandídat, sem í fjórgang hefur sagst hafa mikla reynslu, þekkingu og vilja til að starfa í borginni, að tala um 30 ára áætlun Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Mætti kalla það „stóra stökkið“? En fyrst er að sjá hvort þeir ná kjöri. Svo er að sjá hvort þeir haldi völdum í 30 ár.