Héldu menn virkilega að við kæmumst áfram?

Er ég svekktur yfir því að íslendingar drulluðu á sig í Ojróvisjón ársins? Hreint ekki. Þá þurfum við ekki að hlusta á þjóðernisfasísk komment sjónvarpsviðrinisins Gísla Marteins, þar sem hann tuðar um helvítis hundingstyrkja með absólút nó ríspekt fyrir þeim glæstu væringjum miðalda. Fari hann og veri. Nú verður fyrst gaman að horfa á Ojróvisjón!

Nú fara menn sjálfsagt að velta fyrir sér nýrri taktík, fyrst það virkaði ekki að senda óskabarn þjóðarinnar, sem lengst komst í keppninni. „Hún hefur reynsluna,“ sögðu menn, „sem hún ekki hafði þá. Ergó hún vinnur þetta núna, fyrst hún lenti í öðru sæti þá.“ Hve menn geta reist sér hús á sandi.

Tvennt

1. Mér finnst það alveg hræðilega óskemmtilegt að sitja í strætó með fólki sem ómögulega getur beðið áfangastaðar til þess að hakka í sig ýmis konar matvæli. Sér í lagi ef viðkomandi sér sér ekki fært að tylla sér neinsstaðar annarsstaðar en við hliðina á mér. Mér finnst það hreint út sagt í hæsta lagi ósmekklegt. Verst er það þó ef átmenn þessir stunda þessa iðju sína á ógeðfelldan hátt, eins og ég ímynda mér að margir þeirra geri. Það gæti vel haldist í hendur, gríðarleg átþörf og ógeðfelldir borðsiðir, þó ég fullyrði nú ekkert um hvort svo sé.
2. Einhverju sinni er ég brúkaði orðtakið ‘guð má vita’, sem svo oft áður, fannst viðmælanda mínum eðlilegt að spyrja hvort ég tryði á guð, en það gat ég ekki játað, og ef ekki, hvers vegna ég talaði þá um hann sem til væri. Þessi hugsun er alröng. Það er í höndum okkar, sem ekki trúum, að leggja nafn guðs við hégóma, en ekki trúaðra, eins og alþjóð gerir sér áreiðanlega grein fyrir. Því væri það ekki guðlast, að hrópa nafn guðs af lítilfjörlegasta tilefni?
Þetta tjáði ég viðmælanda mínum spekingslegur á svip og samþykkti hann nálgun mína. Þá er að sjá, hvort lesendur mínir séu sama sinnis, ef einhverrar skoðunar gætir meðal þeirra á lítilmerkilegum málum sem þessu.

Hattakaup

Ég fór upp í toll og sótti hattinn minn. Pósturinn rukkaði mig um tæpan fjögurþúsundkall í toll og virðisaukaskatt. Það er ekki í lagi hvað hlutirnir kosta hér á landi. Hér er sundurliðun á kostnaði hattsins:

Hattur, 5798 kr.
Sendingarkostnaður, 2255 kr.
Tollur 1208 kr.
VSK, 1973 kr.
Aðflutningsgjöld, 614 kr., geri ég ráð fyrir.

Heildarverð: 11848 kr.

En nú á ég í það minnsta góðan hatt og þarf ekki að skammast mín fyrir óhóflega barðastærð eins og var raunin með gamla hattinn minn.