Skjaldborg er víst enn til

Ég skrapp áðan á bókamarkað Skjaldborgar við Grensásveg. Þar fann ég ýmislegt, þ.m.t. allar Íslendingasögurnar í útgáfu sem ég hef aldrei séð áður (sem er skrýtið, því ég held ég hafi séð þær velflestar, ef ekki allar) og á hlægilegu verði. Því miður fyrir mig á ég þær allar fyrir, svo ég spara engan pening á að kaupa þær allar aftur. En þessar bækur keypti ég:

Blá fiðrildi, ljóðabók eftir Leonard Cohen (ég hef ekki hlustað nægilega mikið á Cohen til að hafa raunverulegan áhuga á ljóðabók eftir hann, en mér fannst kápan fyndin),
Þjóðlegar sagnir og ævintýri II, skrásettar af Ingólfi Jónssyni frá Prestsbakka,
Þjóðsögur og þættir II, skrásett af Einari Guðmundssyni (ég gerði mér ekki grein fyrir því að þjóðsagnasöfnun hefði enn verið í gangi fyrir svo lítið sem 20 árum, svo ég keypti þessar tvær til að svara forvitni minni. Hvort fyrri bindin séu einhversstaðar til veit ég ekki),
Kennslubók í hnefaleik, gefin út af Hnefaleikadeild Knattspyrnufélags Reykjavíkur árið 1948 (einum of fyndið – með skýringarmyndum!)
og Sælir eru einfaldir, eftir Gunnar Gunnarsson, sem ég fékk áhuga á fyrir tilstuðlan Einars Steins.

Allt þetta keypti ég á sléttar kr. 2000 íslenskar. Einnig sá ég tvö smásagnasöfn sem vöktu athygli mína, hið fyrra eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, en hið seinna eftir Sverri Pál Erlendsson. Þá rak ég augun í fjall gjört úr ýmsum verkum Gunnars Gunnarssonar, svo ég steingleymdi þeim. Fyrir Einar skal ég nefna þær bækur sem ég sá, skyldi hann hafa áhuga á þeim, en þær eru Jörð, Fóstbræður og Leikrit (nokkrar númeraðar bækur), auk þeirrar fyrstnefndu.

Ég mæli með bókamarkaði Skjaldborgar af einni ástæðu: Þar eru tonn af hræðilegum bókum sem augljóst er hvers vegna enginn keypti, s.s. allar dulspekibækur síðustu tuttugu ára. Inn á milli má finna verulega góðar bækur (þó alls ekki mikið) og bækur sem vekja upp minningar, eins og risastóra bókin um líkamann (um meter, 1,20 á hæð), sem til var á skólabókasafni Laugarnesskóla, og Turtlesbækurnar fjórar, en hver þeirra fjallaði um ævintýri hverrar skjaldböku fyrir sig.

Það kostar ekkert að kíkja, svo kíkið þið.