Af uppruna Þjóðólfs Arnórssonar

„Ekki virðast til meiri andstæður en þetta virðulega hirðskáld og hinn ruddalegi Halli. En í sennu þeirra Halla kemur upp úr kafinu að Þjóðólfur er alinn upp í sárri fátækt á Íslandi: „Þjóðólfur hafði það verk er hann var heima að hann bar út ösku með öðru ungmenni og þótti til einskis annars fær og varð þó að hyggja að eigi væri eldur, svo að mein yrði að“. Og hann hefur einnig étið föðurbana sinn. Faðirinn var fátækur og barnmargur og hafði fengið kálf að ölmusu en kálfskömmin banað honum fyrir slysni. Halli segir Haraldi konungi Sigurðarsyni söguna af þessu og Þjóðólfur „hleypur … upp og vildi höggva til Halla“ og þykir greinilega smán að fátæktinni og hinum gróteska dauða föðurins“.

Ármann Jakobsson, Konungurinn og ég, í Þjóðerni í þúsund ár? bls. 52.

Allt og ekkert

Tarja Halonen vann finnsku forsetakosningarnar. Mér skilst hún hafi verið besti kosturinn. Í það minnsta betri en eini vinur Framsóknarflokksins á Norðurlöndunum, Matti Vanhanen.

Ég hef átt nokkuð erfitt með mig síðustu daga, næ ekki að hugsa eina einustu hugsun nema komast að niðurstöðu sem ég svo hafna skömmu síðar. Finnst eins og ekkert sem ég geri eða reyni að gera sé að stefna neitt. Veit ekki nema hálfpartinn hvað amar að mér, segi það ekki hér, eins freistandi og það nú annars er.

Get skilið báðar hliðar í Múhammadsmyndbirtingarmálinu stóra. Og mér er svosum alveg sama hver niðurstaðan verður. Hinsvegar finnst mér, óháð öllu öðru, að menn eigi að vera reiðubúnir að taka afleiðingunum takist þeim að móðga einhvern. Það er ofurmikil einföldun að ætla að fórna höndum og ásaka hinn um tjáningarfasisma ef þú móðgar hann. Menn gleyma því gjarnan að trú er enn grundvöllur ýmissa siðmenninga, hvaða augum sem menn vilja svo líta trúarbrögðin.