Annasöm helgi

Á leiðinni austur á föstudaginn, rétt fyrir gatnamót Þrengsla og Hellisheiðar, sá ég bílhræ merkt: Tíu látnir á árinu. Laust fyrir ellefu í gærkvöldi, á heimleiðinni, stóð á sömu bílhræum: Tólf látnir á árinu. Í dag lést svo enn einn. Þetta hefur verið annasöm helgi hjá sláttumanni dauðans. Þrír er góð helgi.

Mig minnir, að þegar við krakkarnir úr skólanum fórum í sumarbústað í Fljótsdal yfir eina nótt, að þrír hafi dáið milli þess að við tókum Hellisheiðina og þar til við komum ofan af henni aftur. Post hoc, ergo propter hoc-hugsanagangur gæti komið fólki á þá skoðun að ég ætti helst að forðast það að ferðast.

Diskar, skálar, ryksogun, ítarefni

Ætli nokkrum öðrum en mér finnist það merkilegt að íslendingar hafa sérorð yfir djúpa diska meðan aðrir tala um skálar eða í besta falli súpuskálar.

Talandi um skálar, þá eru brjóstastærðir víst mældar í „skálum“. Ætli það sé til marks um myndlíkingareðli mannsins? Tja, það er spurningin.

Varðandi íhugunarefnið sem ég skildi lesendur eftir og sjálfsagt enginn íhugaði, þá er til önnur sögn yfir að ryksuga, en það er að ryksjúga. Það er meira vit í að sjúga en að suga, þar sem sugur sjúga, en suga ekki. Hins vegar teljast svona málvandanir yfirleitt bera þess merki að vera snobbaðar. Það er athyglisvert (ekki athyglivert). En svona málvandanir eru heldur tilgangslausar. Hverjum er t.d. ekki sama hvort talað er um mexíkana eða -kóa?

Ítarlesefni dagsins: Grein Sverris Jakobssonar um skyrmótmæli, pistill Hreins Hjartahlýs um hátíðarræðu Halldórs Ásgrímssonar og Norðanátt Hermanns Stefánssonar, sem blæs ferskum andvara um lukta líkgröf Bloggheima. Mælt er með því að síðastnefnda sé lesið frá upphafi.