Freizeit mit Arbeit

Eitt er það verra við að vinna í verslun en annarsstaðar, og það er að ég hef minni tíma fyrir sjálfan mig, þrátt fyrir að vinnutíminn sé nær sá sami. Þar sem ég vinn innan um fólk reyni ég að vera sem best til reika og fer því að sofa fyrr en ella, eða í kringum miðnætti. Ég svæfi því átta til níu tíma á nóttu ef ég gæti yfirhöfuð sofið, en svefn er hvort eð er ekki breyta í þessu dæmi, heldur sá tími sem ég eyði í rúminu.

Dæmið er svona, miðað við kjörgerð sólarhringsins:

Ikea: Ég fer að sofa á miðnætti, vakna klukkan níu á morgnana og er mættur til vinnu klukkan hálftíu. Ég er búinn klukkan hálfsjö og hef því fimm og hálfan tíma fyrir sjálfan mig.

Önnur vinna: Ég fer að sofa á bilinu tólf til hálfþrjú, vakna klukkan hálfátta á morgnana og er mættur til vinnu klukkan átta. Ég er búinn klukkan fjögur og hef því átta til tíu og hálfan tíma fyrir sjálfan mig.

Niðurstaða: Lágmarkstímamunur er tveir og hálfur tími. Hámarkstímamunur eru fimm tímar. Meðaltal þessara tveggja stærða eru þrír tímar og þrjú kortér.

Þetta þjakar mig þó raunverulega ekkert, þar sem ég vinn eingöngu þrjá daga vikunnar. Þessa viku vinn ég þó alla sjö dagana. Þá reynir fyrst á svefnleysið.

Tilvitnun dagsins

„Hann gengur til mín yfir götuna og heilsar mér vingjarnlega. Við höfðum ekki sézt í nokkur ár. Svo spyr hann:
Viltu koma með mér inn á kaffihús Björns Símonarsonar?
Ég missti alveg málið, bara glápti á hann eins og fábjáni. Hefur hann sloppið út af Kleppi? Ég vissi, að það var geðveiki í móðurætt hans. Eða ætlar hann að narra mig inn í eitthvert skúmaskot til að myrða mig? Faðir hans drap útilegumenn bak við fjöll. Svona hafði aldrei komið fyrir mig áður. Að Þórbergi Þórðarsyni væri boðið á kaffihús!“
– Ofvitinn, eftir Þórberg Þórðarson.