Líf mitt sem „krossari“

Um ævina hef ég nokkuð sveiflast milli beggja bóga hvað trúmálin varðar, þó sérstaklega milli tíu til sextán ára aldurs. Síðastliðið haust skráði ég mig svo loksins úr þjóðkirkjunni. Fjórum sinnum fór ég í Vatnaskóg með KFUM, á aldrinum ellefu, tólf og tvisvar þrettán, síðasta skiptið í fermingarfræðslu. Telja má fyrstu þrjú skiptin til tímabila þónokkurrar trúar. Í raun var ég opin bók hverjum trúmanni til ritunar, hefði nokkur talið það eftir sér að halda trú minni við. En vegna þess að það gerði enginn, tók trúin að dala í hvert sinn er ég yfirgaf sælureitinn í Hvalfirði.

Sautján ára fór ég fimmta sinni í Vatnaskóg, til að kveðja staðinn. Þá þýddi ekkert að ræða við mig um trúmál lengur.

Ein er til góð saga af ferðum mínum til skóglendisins við Eyrarvatn, en þá var ég þar í mitt fyrsta skipti. Eftir hverja kvöldvöku bauðst hverjum sem vildi að koma til bænastundar í kapellunni, en það nýtti ég mér alltaf, svo ég gæti vakað lengur, og vegna þess að kapella þessi er einn sá albesti íhugunarstaður sem ég veit. Eitt kvöldið eftir bænastund, þegar nokkrir dagar af dvöl minni eru liðnir, kemur að mér flokksforingi nokkur, Baldur að nafni, og spyr mig hvort ég sé krossari eins og Óskar (nafnið á drengnum man ég nú ekki, en drengurinn sá gekk ávallt um með stærðarinnar biblíu undir vinstri handlegg, spakur á svip), þar sem við séum þeir einu sem koma til kapellustundar á hverju kvöldi. Í sakleysi mínu játa ég því, jújú að það hljóti að vera, að ég sé krossari. Það hlaut að vera titill hins staðfasta trúmanns, fannst mér.

Flaug fiskisagan. Brátt fóru foringjar að heilsa mér með nafni og kinka vingjarnlega til mín kollinum, af engri sjáanlegri ástæðu. Ég hlaut að vera svona skemmtilegur. Dag einn á fótboltavellinum, eina staðnum í Vatnaskógi sem ég fann mig aldrei á, fer Baldur foringi enn einu sinni að ræða við mig um krossismann. Ég hætti raunar að botna upp né niður í eigin kringumstæðum, hvern andskotann ég væri búinn að flækja mig í, þegar hann spyr mig hvort við hittumst ennþá á götu X, eða hvort komin sé einhver gata Y inn í dæmið. Hér hafði augljóslega orðið einhver misskilningur, sem ég þorði ekki að leiðrétta, svo ég sagði honum að það væri engin gata Y. Gata X væri ennþá vor reglulegi fundarstaður og í fullu gildi.

Það hélt ég að yrðu málalyktir, að ég væri dálaglega búinn að snúa mig úr snöru krossismans. Það hefði kannski verið svo, ef ekki hefði verið fyrir Hannes foringja, sem hafði verið nemandi föður míns í Árbæjarskólanum á níunda áratugnum, og hafði sérstaklega mikinn áhuga á trúarlífi okkar feðga. Mér varð öllum lokið þegar hann spurði mig hvort faðir minn væri jafnvel prestur í einhverri sókninni! Foringjarnir umlykja mig lymskulega til að hlýða á svar mitt. Mitt svar: Ég held að þið séuð eitthvað að misskilja. Þvílíkan andleysisaumingjasvip hef ég aldrei síðan séð framan á nokkrum manni. Eftir þetta var mér aldrei heilsað, nema aðstæður kröfðust þess.

Löngu síðar lærði ég hvað Krossinn var, og er. Hitt hef ég þó aldrei skilið, hvers vegna þeim kunni betur við mig sem „krossara“ en kirkjumann. Kannski þótti þeim fyndið að til eru börn sem nema af vörum brjálæðinga. En það fæ ég líklegast aldrei að vita.

Déskotans

Hressi brjálæðislegra-augnatillitagaurinn í IKEA vakti Merkilegasta og mikilvægasta bloggara Íslands með símhringingu klukkan ellefu og bað hann um að mæta í vinnuna. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að MMBÍ ætlar ekki að mæta í vinnuna í dag. Honum tókst ekki að sofna aftur. Þá er plan dagsins farið í hundana.

Rómverjar og Ítalir

Lýsing Haraldar á Ítölum er talsvert ólík minni eigin reynslu af sömu þjóð. Það hlýtur að vera óheppilegt að alhæfa útfrá íbúum leiðinlegustu borgar m.t.t. túrisma í allri suður-Evrópu, því sjálfur þekki ég Ítala eingöngu af kurteisi, skyldurækni og góðmennsku. Meira að segja leigubílstjórarnir eru frábærir. Og sá ítalski matur sem ég þekki er æðislegur.

Um umferðina er hins vegar ekki annað hægt en að vera sammála. En aðrar þjóðir sama heimshluta eru síður en svo undanskildir sama hátterni, þá sérstaklega ekki helvítis Frakkarnir.

En eftir liggur að Róm er Róm og ekki Ítalía. Róm er Ítalía in extremus; þar safnast skíturinn saman, sbr. allir vegir liggja til Rómaborgar-frasinn. Samanburðurinn er álíka góður og milli Mexíkóborgar og landsins alls, eða milli Andorra og Costa del Sol. Þá er allt eins hægt að tala um Grænland og Japan.