Komandi dagar

Enn er ýmislegt sem mig vanhagar fyrir Spánarför mína eftir sex daga. Ég þarf að kaupa mér buxur, greiða reikningana, sækja pin-númerin mín í bankann og tæma myndavélina. Eins gott er að hafa hraðar hendur svo ég nái þessu nú örugglega. Með tvo vinnudaga framundan og verslunarmannahelgi er best að gera sem mest í dag. Annað frestast fram á þriðjudag eða, í versta tilfelli, fram á miðvikudag.

Ekki man ég eftir einni verslunarmannahelgi sem mér þótti sérlega skemmtileg, nema auðvitað þeirri í fyrra, en þá var ég ekki á landinu. Verslunarmannahelgin er sumsé best þar sem ekki er haldið upp á hana. Eins og í Reykjavík, en þar er best að vera meðan ósköpin dynja yfir. Grey verslunarfólkið vinnur hvort eð er eins og skepnur eins og hverja aðra helgi. Að ég tali ekki um hryllinginn sem það hlýtur að vera að vinna á einhverjum matsölustaðnum í Eyjum.
Hvað fær fólk eiginlega til að ferðast þangað unnvörpum, liggja inni í tjöldum í rigningunni og hlusta á Árna Johnsen? Getur þetta talist eðlileg hegðun, eða eru þetta bara ósjálfráð viðbrögð sextán ára unglinga við fjölda taugaboða sem hlaupa af stað við að heyra minnst á taumlaust fyllerí fjarri gínandi vendi foreldrahúsa? Nei, hvernig sem á þetta er litið finnst mér allar Eyjaferðir álíka mikið anómalí og ef kóngafiðrildi streymdu á Suðurpólinn og mörgæsir lærðu að fljúga, færu til Ástralíu og gætu börn við strútum. Ojbara, en sú hugmynd!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *