Til hins betra

Þá er ég kominn úr klippingu. Til að komast leiðar minnar notaði ég strætókerfið nýja hið fyrsta sinn og kunni því ágætlega. Hlemmur hefur tekið miklum stakkaskiptum, allar breytingar til hins betra, nema nú þarf fólk að læra að keyra ekki þá leiðina. Sjálfsagt verður fólk búið að fatta það fyrir næstu aldamót.

Klyfjahesturinn sómir sér vel við hið endurnýjaða Hlemmtorg. Væri ekki ráð að reyna að fegra borgina enn frekar með listaverkum sem þessu? Það er altént mín skoðun.

112298848313103376

Þessi skandall er tilkominn af ástæðu. Vegna þess að hæstvirtur Birgir Már Daníelsson hefur oftar en einu sinni birt nafn mitt á síðu sinni við hliðina á mynd af Ron Perlman, er ekki ástæðulaust að ætla að mynd af téðum Perlman dúkki upp í leitarvél þegar leitað er að mér. Svo einfalt er það. Tilbúnar niðurstöður. Vitaskuld yrði Perlman æfur ef hann frétti þetta, vitandi að hann er margfalt ljótari en ég.

Undirbúningur hafinn

Var að koma úr bankanum, þar sem kaffið er alltaf svo gott. Mæli með að fólk eigi sín viðskipti við Íslandsbanka, þó ekki væri nema út af kaffinu. Var semsagt að færa fé milli korta. Ákvað að í þetta skiptið hefði ég helming alls á debitkortinu og afganginn á kreditkortinu, svo allt færi nú ekki fjandans til þótt ég tæki upp á að glata öðru þeirra.

Það spúkar mig raunar talsvert að heimabankinn sýnir ekki breytingu á innistæðu nema fyrir annað kortið, eins og há summa hafi horfið af tékkareikningnum og ekkert komið í staðinn. Annars hef ég fyrir löngu lært að treysta ekki heimabankanum mínum. Hann hefur sinn eigin vilja.

Í gær fékk ég sms frá skólafélaginu (ég hef þegar lýst vilja mínum til að hætta að fá slík skilaboð) þar sem útskriftarferðarförum var boðið að fá tíuþúsund krónur endurgreiddar í skiptum fyrir pláss á lélegra hóteli. Ég fyrir mitt leyti tel það vera flónsku að eiga að breyta margra mánaða áætlun á síðustu mínútum og tek ekki áhættuna á að enda úti á götu vegna allra mögulegra mistaka sem orðið gætu, og það í skiptum fyrir tíuþúsundkall. Ég vona bara að allir Jóakim Aðalendur þessarar ferðar lendi ekki í neinu veseni vegna þessa.

Næst er það leiðinlegasti hluti hvers ferðalags: Að pakka. Mig hryllir við.