Prestar eru ekkert heilagri en aðrir

Kona nokkur, starfsmaður sænska kapítalsins, sagði mér í gær að viðskiptavinur, sem ku vera prestur og gift öðrum og frægari presti, hefði hælt þjónustu minni mjög, sagt mig lipran, kurteisan, snjallan og almennilegan, og að annarri eins þjónustu hafi hún vart kynnst áður. Megi guð hennar ljósta hana og forsmána fyrir að ljúga svona upp á mig.

Prestar ljúga áreiðanlega manna mest í krafti embættis síns, þar sem enginn vill trúa því að prestar geti logið. Það er nú meiri barnatrúin. Um presta gildir það sama og um gagnfræðaskólakrakka sem þykjast ætla á klósettið svo þeir geti fengið sér að reykja og forstjóra sem versla út á fyrirtækið. Og væri ég prestur myndi ég ljúga eins og nefið á mér leyfði, og sá sem vændi mig um lygar, hann væri bara guðlaus ræfill. Enda er það tapað stríð að væna presta um lygar. Það væri eins og að kalla Kína alþýðulýðveldi.