Snúið við taflinu

Það verður seint sagt um mig að ég sé góður í skák. En ég hef verið að betrumbæta tæknina smám saman síðustu daga og sótti mér hið ömurlega skákforrit NagaSkaki áðan. Nú, eftir nokkur mistök í upphafi fór mér að ganga ágætlega og forritið gerði þau mistök að skilja drottninguna eftir þar sem ég gat hæglega drepið hana. Nema hvað, að þegar ég færði mig til höggsins, vildi forritið ekki skilja það. Það hafði nefnilega snúið við taflinu, í orðsins fyllstu merkingu, og fór að hreyfa mína menn um meðan ég sat uppi með glataða stöðu forritsins. Urg! Þessum tölvum er ekki treystandi fyrir neinu.

Fokkíng Síminn

Internettengingin mín hefur verið martröð líkust síðan Síminn var einkavæddur. Tengingin er ekki aðeins hæg heldur neitar fartölva bróður míns okkur um nettenginguna oft og tíðum, fyrr en að liðnu kortéri, allt upp í hálftíma og jafnvel lengri tíma.

OgVodafone heyr tapaða baráttu meðan Síminn hrifsar til sín viðskipti þeirra með því að bjóða aðeins þeim sem hafa ADSL og heimasíma hjá sér upp á enskan fótbolta. Í ofanálag getur Síminn rukkað hvaða upphæð sem honum sýnist fyrir afnot af grunnnetinu, sem öll símaþjónusta stendur og fellur með.

Til hamingju með einkavæðinguna indeed!

Ótrúlegt hverju fólk getur trúað

Þegar ég las þetta gat ég í fyrstu ekki varist hlátri. Sú fullyrðing að maðurinn sé 70% vatn er gömul og úrelt tugga sem enn er troðið ofan í grunnskólanema landsins, þrátt fyrir að þær upplýsingar séu álíka hagnýtar og vessajafnvægiskenning Hippókratesar. Í raun og veru er ekki mikið vatn í líkamanum. Hins vegar eru efni í líkamanum sem hægt væri að gera ótrúlegustu hluti úr, þ.á.m. vatn. Ég man, svo annað dæmi sé nefnt, ekki hversu margar þúsundir eldspýtna væri hægt að búa til úr þeim efnum sem finnast í meðalmannslíkamanum. En til allrar hamingju eru ekki mörgþúsund eldspýtur í skrokkum okkar frekar en hann er 70% vatn. Og þaðanafsíður hefur tunglið áhrif á það „vatn“ líkt og það hefur áhrif á flóð og fjöru.

En auðvitað á ekki að hlæja að lygaspekinni. Hana ber að varast. Og þessi hundalógík sem lygaspekingar gjarnan beita á ekki upp á pallborðið í raunverulegri umræðu. Hún firrir manninn og forheimskar. Og mönnum sem hafa það að atvinnu að bera lygaþvælu, sem þvert gengur gegn lögmálum náttúrunnar, ofan í auðtrúa lýðinn, ætti ekki að vera leyft að tjá sig gagnrýnislaust í fjölmiðlum. Það getur beinlínis verið hættulegt.

Þetta var sumsé mitt litla innlegg í þessa umræðu, en ég mæli eindregið með þessum tveim umfjöllunum á sömu blaðagrein.