Tilvitnun dagsins

Tilvitnun dagsins á litli bróðir minn, sem hefur alveg sérstakan talanda þegar hann reynir að bæta mettímann í að koma einhverju frá sér. Í þetta sinn sagði hann mér brandara úr einhverjum grínþætti:
&#8222Það var ógeðslega fyndið í Tom and Berry, þegar Sparky kom svona með hjarta á Valentine’s Day, og sagði: Here’s a card in time og þá var alveg: Oh, no! Not a real heart, sagði Exwife!&#8220
Ég gat ekki varist því að skella upp úr. Ekki vegna þess að brandarinn væri svona fyndinn, heldur vegna þess að hann heldur áreiðanlega að fyrrverandi eiginkonan heiti Ex-Wife. Segið svo að sjónvarpið ali ekki á staðalmyndum!
Annars er fyrrverandi eiginkonan einum of týpískur karakter, sem nánast undantekingarlaust er mannfjandsamleg og aðalpersónunni til trafala þegar hann fremur einhver af sínum fjölmörgu axarsköftum, þar sem hann er jú bara feitur einfeldningur sem drekkur bjór, þegar allt kemur til alls. Reyndar, þegar ég hugsa um það, er þessi málsgrein nærri fullnægjandi sem innihaldsgreining á bandarísku skemmtiefni. Það vantaði bara heimskari vininn (haltur leiðir blindan), sem ávallt er með aðra höndina í ísskáp fjölskylduföðurins og hina í klofinu, og skapvonda heimilisafann sem enginn veit hvers vegna býr inni á feitum syni sínum, fallegu núverandi (eða ævarandi) eiginkonu hans og þremur óþolandi krökkum.
Krakkarnir eru að sjálfsögðu sérkapítuli, en þeir eru undantekningarlaust þrír: Stóra systirin, sem á kærasta sem á mótorhjól, pabbinn þolir ekki en mömmunni finnst í lagi. Millibróðirinn, sem neitar að læra heima nema eftir smá quality time með föður sínum, er í uppreisn gagnvart móðurinni og, ef því er að skipta, ömmunni líka. Síðast en ekki síst er sá sem mest er óþolandi, en það er litla stelpan sem á yfirborðinu er sæt, stillt og prúð, en undir niðri er hún lævis og undirförul og fær allt sem hún vill. Hún á aðeins einstaka sinnum í útistöðum við miðjubróðurinn, en þeim viðskiptum líkur undantekningarlaust þannig að litla hefur betur, enda svo mikil pabbastelpa. Og mömmustelpa, ef svo ber undir.
En jæa, nóg komið af þessu rugli. Nú er það rússneska og Gunnar Gunnarsson!

Skítaviðhorf

Um daginn leit ég við á trúarbragðaumræðu umræðuvefs Vísis og sá eftirfarandi orð, sem í hæsta máta en aðeins tæplega svo, væru afsakanleg fyrir tólf ára krakka sem veit ekki betur:

„Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn-reglunni verður að beita af skynsemi, þannig að refsingin hæfi glæpnum. T.d. er sanngjarnt að Hákon Eydal verði aflífaður í staðinn fyrir að fá að vera á Hóteli Litla-Hrauni í 12 ár, svo er hann frjáls til að fá sér nýja konu til að myrða […] Ég reyndi einu sinni að skrifa lesendabréf til DV um að það ætti að aflífa Hákon Eydal. Þeir neituðu að birta það, því að DV var orðin málpípa Hákonar“.

Svona fíflakomment eru aðeins til þess gerð að reita mig til reiði. Já, það verður að beita reglunni af skynsemi, en það verður aðeins gert með því að beita henni alls ekki. Það er ekki sanngjarnt að aflífa Hákon Eydal eða nokkurn annan mann, sama hvern andskotann þeir kynnu að gera eftir vistina á Hrauninu, sem er að sögn enginn fínerísstaður og þaðanafsíður hótel. Svona ofsatrúardjöfulsinssiðleysi á ekki að líða nokkrum manni og annar eins viðbjóðsþankagangur ætti fremur að gefa tilefni til meðferðar en rökræðna. Það verður ekkert debatt um siðferði manndráps. Það er með öllu siðlaust, sama hverjar kringumstæðurnar eru, og þeim fanatíkerum sem leyfa sér aðra skoðun væri hollara að þegja um þá skoðun og ekki viðra þá staðreynd að þeir eru klikkaðir og samfélagi sínu til sárrar óþurftar. Það þarf ekki frekar vitnanna við.

Endurkoma netsins

Netið virðist verið snúið aftur um stundarsakir. Það er eins og vandræðabarn sem ég hvorki get alið né hent út á götu, heldur kemur og fer þegar það vill.

Að öðru leyti er ég hæstánægður með hlutina flesta. Ég er í essinu mínu í skólanum og mig hryllir við þeirri tilhugsun að einhverntíma í fjarlægri framtíð muni ég ljúka námi mínu. En hlutirnir verða sjálfsagt talsvert breyttir þá.

Tékklandsför okkar mæðgina hefur í öðrum fréttum verið aflýst vegna Hvassaleitisbílstjórans ægilega. Það væri þá hyggilegra að nota peningana til þess að kaupa nýjan bíl en að eyða viku í bjórdrykkju í Prag. Hinn bíllinn var annars víðförull, en löng ferð hans frá Saudi-Arabíu endaði inni í hliðinni á Hyundai. Mikið hlýtur það að vera leiðinlegt fyrir eigandann.

Netleysi

Síminn er ekki að standa sig svo það er því ekkert netsamband heima. Það verður því eitthvað minna um blogg hér á næstunni. Það besta í stöðunni væri að segja upp samningnum við Símann á þeim grundvelli að hann hafi ekki staðið við sinn enda samkomulagsins og skipta við Hive í staðinn. Hive, að ég held, er langtum betra fyrirtæki.
Skólinn er annars byrjaður og því kann ég vel. Rússneskan leggst sérstaklega vel í mig. Þetta er án efa leiðinlegasta færslan mín í lengri tíma.